Efnahagsmál Vörn hefur verið snúið í sókn, hvað varðar viðskipti Íslendinga við aðrar þjóðir. Þetta kemur fram í nýjasta hefti Peningamála Seðlabankans. Þar segir að spáð hefði verið smávægilegum bata í viðskiptakjörum í ár frá fyrra ári eftir samfellda rýrnun frá árinu 2010. En í fyrra höfðu viðskiptakjör rýrnað samtals um 17% frá árinu 2007.
Horfur fyrir næstu tvö ár hafa einnig batnað sem fyrst og fremst má rekja til betri horfa um þróun útflutningsverðs, einkum verðs sjávarafurða. Gert er ráð fyrir að viðskiptakjör batni samtals um tæplega eitt prósent á spátímanum en í febrúar var spáð ríflega tveggja prósenta rýrnun þeirra.
Kraftmeiri þjónustuútflutningur skýrir tæplega eins prósents meiri vöxt útflutnings í fyrra en gert var ráð fyrir í febrúar. Hann skýrir einnig betri horfur um vöxt útflutnings í ár í samanburði við spá bankans í febrúar
„Þessi bati vegur þyngra en lakari horfur um vöruútflutning sem rekja má til meiri samdráttar í útflutningi sjávarafurða. Útflutningshorfur til næstu tveggja ára hafa einnig batnað. Nú er reiknað með 2,7% vexti útflutnings að meðaltali á ári á spátímanum en í febrúar var gert ráð fyrir tæplega 2% vexti á tímabilinu. Afgangur á viðskiptum við útlönd batnar með samsvarandi hætti.“