- Advertisement -

Þjóðlegur fróðleikur á sunnudegi: Bréf kirkjusmiðsins fannst undir gólfinu 80 árum síðar

80 ár eru liðin frá vígslu Akureyrarkirkju. Fyrsta kirkja Akureyringa var hins vegar vígð árið 1863. Hún stóð þar sem Minjasafnskirkjan stendur nú, í einum elsta bæjarhluta Akureyrar. Kirkjusmiður var Jón Chr. Stephánsson. Við vígslu Akureyrarkirkju árið 1940 var gamla kirkjan afhelguð. Breski herinn tók hana til umráða og nýtti sem geymslu á hernámsárunum. Þegar gamla kirkjan var rifin veturinn 1942-43, fannst blikkhólkur undir gólfi í altari kirkjunnar. Þegar hólkurinn var opnaður kom í ljós að hann hafði að geyma bréf, skrifað af yfirsmiðnum sjálfum, dagsett 24. apríl 1863. Kirkjan var vígð tveimur mánuðum eftir að Jón skrifaði bréfið sem nú er varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Í inngangi bréfsins skýrir Jón Chr. frá erfiðleikum við að reisa kirkjuna sökum fjárskorts.

Árið 1862, 26 dag maímánaðar var byrjað á að reisa kirkju, í fyrsta sinn á Akureyri, og höfðu bæjarmenn lengi þráð að fá hana setta á þann stað, sem hún nú stendur á, því margt hefir hamlað að koma því í verk, þó að einkum megi telja efnaleysi, og hafa bæjarmenn styrkt bygginguna með góðum vilja og talsverðum gjöfum, þar Hrafnagilskirkja og eigur hennar hrukku ekki meir en fyrir liðlegum þriðjaparti af kostnaðinum. Mitt í ágúst s.l. ár mátti hætta við smíðið, og var þá lokið utanbyggingunni. Síðan var byrjað á henni aftur 25. febrúar 1863, og byrjaði ég þá á innan smíðum, sem eiga að vera loknar 6. júní 1863, því þá hefi ég lofað að hún skuli messufær.

Sjálfsagt hafa þeir sem rifu gömlu kirkjuna og fundu bréfið á sínum tíma skemmt sér yfir lestrinum. Bréfritarinn sendir þeim nefnilega skilaboð þar sem hann biður þá um að dæma sig ekki fyrir hversu „ófullkomin“ kirkjan sé. Það skýrist af erfiðum efnahag. Svo er einnig að sjá að Jón Chr. hafi við ritun bréfsins allt eins gert ráð fyrir umbótum á kirkjunni vegna þessa. Hann biðlar og til þeirra sem munu koma að endurgerð hennar, komi til þess. Ekki liðu nema 16 ár þar til breytingar voru gerðar á kirkjunni. Grundvallarbreyting var gerð þegar turn kirkjunnar var færður frá austurhlið hennar yfir á vesturhliðina.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…mega ekki leggja harðan dóm á mig…

Margt er miður en ég hefði óskað við kirkjuna, því efnin hafa orðið að ráða. Ég hefi unnið að henni eftir kröftum, og af góðum vilja, og vona því að þessi ófullkomnu verk mín vel lukkist. Þeir sem verða til að rífa hana eða breyta og kynnu að sjá þennan miða mega ekki leggja harðan dóm á mig, þar ég hefi orðið að taka af litlum efnum.

Þeir smiðir, sem hafa unnið að henni, eru þessir: Timburmeistari Jón Christinn Stephánsson, sem yfirsmiður. Snikkari Guðjón Jónsson. Timburmaður Sveinbjörn Ólafsson. Smíðalærisveinn Þorlákur Þorláksson. Timburmaður Bjarni Jónsson. Timburmaður Pétur Thorlacius. Timburmaður Árni Hallgrímsson. Timburmaður Björn Benjamínsson. Timburmaður Jón Jónsson. Snikkari Sigfús Jónsson. Snikkari Jón Pálmason. Járnsmiður Friðrik Jafetsson. Þessir menn hafa unnið mest að smíðum kirkjunnar, þó til skiptis. Þó hafa þessir verið alla tíð; ég, sá fyrst taldi, sá þriðji og sá fjórði.

Það er líklegt að bein mín liggi fyrir löngu fúin, (Guð veit hvar) þegar Akureyrarkirkja verður byggð aftur upp; en það gleður mig að vita af því að reynt muni til að gjöra hana betur úr garði en nú var hægt. Og ég vona að ég verði ekki sakfelldur fyrir mín verk að henni, því fullkominn vilja hefi ég til að fá breytingu á byggingarmáta hér, sem að undanförnu hefir verið mjög einfaldur, og ætlast ég til að kirkjan og apotekið sýni að ég hefi breytt út af gamla vananum að svo miklu leyti sem ég hefi getað.

Eftir að hafa ítrekað gefið í skyn í bréfinu að kirkjan hefði verið byggð af vanefnum með tilheyrandi „göllum“ tekur Jón Chr. engu að síður fram að ekki skuli taka það sem stendur í bréfinu of alvarlega. Hann sendir jafnframt þeim skilaboð sem koma til með að reisa hina nýju Akureyrarkirkju sem og aðrar kirkjur í framtíðinni. Jón Christinn Stephánsson lést þann 18. desember árið 1910.

Þessar línur mínar skrifa ég mér til gamans, og vona ég að þær verði teknar eins. Og ég óska að endingu að þeir, sem að kirkju vinna á eftir mér, geti gert það sér til gagns og gleði, og þeirri nýju kirkju til góðra nota.

Að endingu óska ég kirkjunni allrar blessunar, og öllum yfir höfuð sem sjá kynnu þennan miða, og kveð þá sem kæra vini.

Akureyri, dag 24. apríl 1863.

Miðjan hefur heimild frá grenndargral.is til birtingar efnis sem þar er að finna.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: