- Advertisement -

Þjóðin svipt sjálfstæði sínu

sme llSPRENGISANDUR Hún er hreint mögnuð spurningin sem Lawrence Lessig, prófessor við Harvard háskóla, setur fram í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið. Lawrence spyr  þar einfaldlega, og af gefnu tilefni, hvort íslensk þjóð sé fullvalda, eða ekki.  Tilefnið er öllum ljóst, við kusum okkur stjórnlagaráð sem var falið að skrifa nýja stjórnarskrá, sem það og gerði. Lawrence segir meðal annars í grein sinni:

„Nú hefur þjóð, í fyrsta sinn á sögulegum tímum, samið sér stjórnarskrá með gegnsæjum hætti og samtakamætti, og nýtt til þess tækni sem ekki var til fyrr en á tuttugustu og fyrstu öld. Þó vill svo undarlega til að þessi stjórnarskrá hefur enn ekki öðlast gildi.“

Ef lýðræði er vald þjóðar…

Hann rekur síðan tilurð stjórnlagaráðs, kosningar til þess og annað sem miklu skipti. Lawrence dásamar ferlið allt og bendir á að auk þeirra 25 sem sátu í stjórnlagaráði hafi almenningur sent inn 3.600 athugasemdir sem hafi leitt til ótal breytinga. „Lokadrög voru samþykkt einróma af öllum fulltrúum stjórnlagaráðs og loks lögð fyrir þingið og þjóðina. Um tveir þriðju kjósenda sögðust vilja þessi drög sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá,“ segir bandaríski prófessorinn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Síðan kemur kafli sem ég verð að lesa orðréttan: „Aldrei hafði neitt þessu líkt gerst í sögu stjórnarskrárréttar. Ef lýðræði er vald þjóðar, og ef fullveldi lýðræðisþjóðar byggist á vilja þjóðarinnar, þá er þessi aðferð og þessi stjórnarskrá eins gild og ósvikin og stjórnarskrár annarra ríkja heimsins. Þó hefur Alþingi hafnað því að þessi stjórnarskrá skuli öðlast gildi. Þá kviknar spurning sem hver og einn sem berst fyrir lýðræði um heimsbyggð alla hlýtur að spyrja sig: með hvaða rétti?“
Lýðveldisstjórnarskráin okkar
Allt er þetta áleitið. Salvör Nordal, sem var formaður stjórnlagaráðs, sat hér fyrir hálfum mánuði, og Katrín Oddsdóttir, sem einnig sat í stjórnlagaráði, sat hér fyrir viku. Báðar lýstu miklum vonbrigðum um hver þróun þessa máls hefur orðið.

En hvers vegna hefur þetta gerst? Svo aumt sem það er, þá er svarið að finna í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag. Þar segir höfundurinn, sem kýs að skrifa nafnlaust en er trúlega Davíð Oddsson.

Hann kýs að kalla núverandi stjórnarskrá, lýðveldisstjórnarskrána okkar. Hann hnýtir í leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna og segir: „…sem hafa allt á hornum sér gagnvart lýðveldisstjórnarskránni okkar. Þremenningarnir studdu ákaft að í hennar stað kæmi skrúðmálga óskalisti,…“ þar á höfundurinn við vilja þjóðarinnar, um gildistöku nýrrar stjórnarskrár. Stjórnarskrár sem þjóðin skrifaði og samþykkti.

Höfundi þykir ástæða til að brýna núverandi ráðamenn til að standa áfram vaktina, vaktina gegn þjóðinni, gegn framtíðinni og gerir það á sinn alkunna hátt. Hann skrifar: „Núverandi ríkisstjórn hefur í verki, af óskiljanlegum átæðum, haft það sem sitt fyrsta boðorð að afnema aldrei neitt sem stjórnvitringarnir Jóhanna og Steingrímur komu að.“

Ljóst er að framunda eru átök milli þess liðna og þess sem koma skal.

Sigurjón Magnús Egilsson

Flutt í Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 6. mars 2016.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: