Þjóðin sem kann ekki að kjósa
Enn finnast kjörseðlar sem ekki rötuðu til talningar á kosninganótt. Nú er það í norðausturkjördæmi. Kjörkassinn fannst ellefu dögum eftir kosningar. Nú er komið meira en nóg. Þetta er hreint galið.
Þau sem bera ábyrgð á framkvæmd kosninga verða að gjöra svo vel og hafa eftirlit með talningu og meðferð kjörseðla. Þetta gengur ekki. 2021 voru úrslitin í Borgarnesi hrein ágiskun eftir að þar hafði allt farið í kaldakol.
Í suðvesturkjördæmi verður víst talið aftur. Þar geta úrslit breyst. Látið er sem ekkert liggi á og ábyrgðarfólkið virðist sofa rólega þrátt fyrir vafasöm endalok talningar.
Helga Vala. Helgadóttir fyrrum þingmaður og lögmaður skrifaði rétt í þessu:
„Nei hættið nú alveg. Við virðumst ekki ráða við þetta einfalda verkefni. Í þessu tilviki er um kjörkassa að ræða, með utankjörfundaratkvæðum greidd á kjörstað, væntanlega á suðvesturhorninu en ekki utankjörfundaratkvæði sem kjósendur bera sjálfir ábyrgð á að koma til skila. Þetta þýðir að yfirkjörstjórn í norðausturkjördæmi lýsti endanlegum niðurstöðum kosninga án þess að greidd atkvæði og talin atkvæði stemmdu. Getum við fengið upplýsingar um fjölda atkvæða sem í kjörkassanum voru?“
Í gær skrifaði Helga Vala fína grein um stöðuna þá. Það er áður en NA kjörseðlarnir fundust:
„Í þessari frétt um utankjörfundaratkvæði sem fulltrúar stjórnvalda komu ekki til skila má heyra frkvstj. Landskjörstjórnar skýra svo frá að Landskjörstjórn meti það svo að það sé bara á ábyrgð kjósenda: „En á endanum er það samkvæmt lögum á ábyrgð kjósenda utan kjörfundar að koma atkvæði sínu á leiðarenda. Atkvæði sem ekki berast til kjördeildar fyrir lok kjörfundar á kjördag eru ekki tekin til skoðunar.“
Ég er ekki sammála þessari túlkun Landskjörstjórnar á kosningalögunum, en ákvæðin sem um ræðir eru eftirfarandi:
„63. gr. Móttaka kjörgagna við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.
Kjörstjóri eða annar trúnaðarmaður innan lands, sbr. 69. gr., sem veitir viðtöku utankjörfundarkjörgögnum, skal undirrita og afhenda hlutaðeigandi sýslumanni drengskaparyfirlýsingu um að kosning fari fram samkvæmt fyrirmælum laga þessara.
76. gr. Utankjörfundaratkvæði komið til skila.
(1. málsgrein á ekki við, en er birt til skýringar á 2. málsgrein) Kjósandi, sem fram að kjördegi greiðir atkvæði hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem hann er á kjörskrá og skilur þar eftir bréf með atkvæði sínu, skal sjálfur láta bréfið í venjulegan atkvæðakassa. Atkvæðakassinn skal innsiglaður af kjörstjóra og er umboðsmönnum lista í umdæmi heimilt að setja á hann innsigli sín. Kjörstjóri getur ákveðið að atkvæðakassa skuli samnýta fyrir tvö eða fleiri sveitarfélög innan umdæmis hans eftir því sem við á.
Aðrir kjósendur skulu sjálfir annast sendingu atkvæðisbréfs síns til þess sveitarfélags þar sem þeir eru á kjörskrá.
Fram að kjördegi er kjörstjóra þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst og greiða almennt póstburðargjald undir sendinguna. Kjósandi ber að öðru leyti sjálfur kostnað af sendingu atkvæðisbréfsins.
Fyrir alþingiskosningar, forsetakjör og þjóðaratkvæðagreiðslu er nægjanlegt að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandinn er á kjörskrá. „
Kjósendur sem skráðir eru til heimilis í Kópavogi og greiddu atkvæði utan kjörfundar, en þó ekki hjá kjörstjóra í sínu umdæmi þurfa að koma atkvæði sínu til skila. Samkvæmt lögum geta þeir eingöngu komið atkvæði sínu til skila til þess sveitarfélags þar sem þeir eru á kjörskrá, þ.e. skrifstofu Kópavogsbæjar. Það gerðu þessir íbúar Kópavogs réttilega, enda fundust atkvæðin á skrifstofu Kópavogsbæjar, sem er falið það verkefni af stjórnvöldum að taka við atkvæðum og koma þeim áleiðis. Kjósendurnir sjálfir komu atkvæðum sínum þannig sannanlega til skila á þann eina stað sem var tækur og þannig ekki á þeirra ábyrgð að koma þeim til kjördeildar. Það gátu þessir íbúar ekki því kjördeild á höfuðborgarsvæðinu í aðdraganda kosninga tekur til dæmis ekki á móti utankjörfundaratkvæðum sem greidd eru annars staðar. Þau verða að fara til sveitarfélagsins.
Það var því á ábyrgð Kópavogsbæjar, sem falið var að taka á móti atkvæðum, að koma þeim alla leið í kjördeild og verður kjósanda ekki gert að bera slíka ábyrgð. Ég sé ekki að Landskjörstjórn sé stætt á að láta þetta bara standa svona.
Það er mjög skiljanlegt að almenningur geti ekki kosið eða komið utankjörfundaratkvæðum sínum til skila eftir lokun kjörfunda, en opinberir sýslunarmenn eiga ekki og mega ekki hafa það vald í hendi sér að koma með viðlíka trassaskap í veg fyrir að kjósendur fái sínum lýðræðislega rétti framgengt.
Hvar ætlum við að draga mörkin? Vek athygli á þessu ákvæði kosningalaganna: 130. gr. Gallar sem leiða til ógildingar kosninga.
Gallar á framboði eða kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema líklegt sé að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.
Síðast vorum við með Borgarnesklúðrið sem hafði veruleg áhrif á niðurstöðu kosningar. Þar var það þó ekki milli flokka heldur innan flokka, sem vitanlega hefur töluverð áhrif. Núna gleymdist á þriðja tug atkvæða í umslagi á borði í Kópavogi, (innskot, og heill kjörkassi úr norðausturkjördæmi) og eins og Þorkell Helgason, stærðfræðingur og kosningagúru sagði réttilega í kvöldfréttum þá hefur þessi fjöldi atkvæða líkast til ekki áhrif á stöðu mála í suðvesturkjördæmi en hefði haft áhrif í öðrum kjördæmum með færri kjósendum. (innskot – nú er komið í ljós að fjögur atkvæði til sjálfstæðisflokks í suðvestur gjörbreyta hvaða þingmenn eru hjá sjálfstæðis og viðreisn, sjá í ummælum)
Það gengur ekki að láta það bara standa. Það gengur bara alls ekki.