- Advertisement -

Þjóðin er búin að fá nóg af frændhygli, einkavinavæðingu og spillingu

Marinó G. Njálsson:

Skilja að lífskjör margra eru afleit. Þó þau hafi batnað samkvæmt einhverri tölfræði, þá endurspeglar tölfræði ekki lífið og fólk greiðir ekki reikninga með tölfræðiniðurstöðum.

Ég hef enga trú á því, að Sjálfstæðisflokkurinn fái bara 16,1% atkvæða upp úr kjörkössunum næst þegar verður kosið. Hann mun þó fá lélegt fylgi á mælikvarða flokksins, en BB, eða hver sem verður formaður þá, mun fagna miklum varnarsigri að hafa ekki tapað eins miklu fylgi og stefndi í. Í annað sinn á stuttum tíma eru hins vegar bæði Framsókn og VG að gera allt til að breyta flokkum sínum í dvergflokka.

Sé sagan skoðuð, þá gerðist það í fyrsta sinn í lýðveldistíma í kosningunum árið 2009, að Sjálfsstæðisflokkurinn væri ekki stærsti flokkur landsins. Þá sló Samfylkingin honum við og litlu munaði að VG næði honum líka. Munaði svo sem ekki miklu í kosningunum árið 2003, þegar xD fékk 33,7% og xS 31,0%. Aðeins tvisvar áður hefur Sjálfstæðisflokkurinn haft jafn fáa þingmenn og núna (16 þingmenn), þ.e. 2009 og 2017.

Meðalfylgi flokksins í könnunum á lýðveldistíma fram að hruni var hátt í 38%, eftir hrun er það tæp 26% og stefnir í sögulegt tap í næstu kosningum, nema að flokknum takist að endurheimta gamla kjósendur.

Raunar á það svo sem við um VG, þegar flokkurinn kemst í ráðherrastóla, og Framsókn í þessu stjórnarsamstarfi.

Og hverju kenna opinberir og óopinberir talsmenn flokksins um. Jú, að Svandís Svavarsdóttir hafi ákveðið að Kristján Loftsson fái ekki að veiða hval! Það hefur ekkert að gera með að þjóðin er búin að fá nóg af frændhygli, einkavinavæðingu og spillingu sem kemur ansi víða upp, þegar Flokkurinn tengist málum. Menn tengja það ekki, að Flokkurinn er einstaklega ólaginn við að hlusta á þarfir almennings, en einblínir aftur og aftur á þarfir efnafólksins, elítunnar. Raunar á það svo sem við um VG, þegar flokkurinn kemst í ráðherrastóla, og Framsókn í þessu stjórnarsamstarfi.

Mér er í sjálfu sér alveg sama hvaða flokkar mynda ríkisstjórn, ef þeir ná bara að skilja þarfir almennings og sérstaklega þeirra verst stöddu. Það á ekki að þurfa að fara út á torg með kröfur sínar, því góðir ráðamenn heyra það ósagða. Skilja að lífskjör margra eru afleit. Þó þau hafi batnað samkvæmt einhverri tölfræði, þá endurspeglar tölfræði ekki lífið og fólk greiðir ekki reikninga með tölfræðiniðurstöðum.

Til er góð dæmisaga um konung sem vildi búa son sinn undir að taka við af sér og sendi hann til mikils meistara. Meistarinn sendi strákinn út í skóg og bað hann um að segja sér hvað hann hefði heyrt. Strákurinn dvaldi nokkra daga í skóginum og kom til baka.

,,Meistari,“ svaraði prinsinn, ,,ég heyrði gaukinn syngja, laufin skrjáfa, hunangsfuglana suða, krybbuna kvaka, grasið bærast, býið niða og vindinn hvísla og hrópa.“ Þegar prinsinn hafði lokið máli sínu, sagði meistarinn honum að snúa aftur út í skóginn og leggja betur við hlustir.

Dag og nótt, sat ungi prinsinn aleinn í skóginum hlustandi. En hann heyrði engin önnur hljóð en hann hafði þegar heyrt. Það var síðan einn morgun, er prinsinn sat hljóður undir trjánum, að hann byrjaði að greina máttfara hljóð ólík þeim sem hann hafði heyrt áður. Því betur sem hann lagði við hlustir, því skýrari urðu hljóðin. Hugljómunartilfinning fór um drenginn. ,,Þetta hljóta vera hljóðin sem meistarinn vildi að ég greindi,“ hugsaði hann með sér.

Þegar prinsinn sneri aftur, spurði meistarinn hvað meira hann hefði heyrt. ,,Meistari,“ svaraði prinsinn fullur auðmýktar, ,,þegar ég lagði betur við hlustir, gat ég heyrt það sem eyrað nemur ekki – hljóðin í blómunum opnast, hljóðið í sólinni að verma jörðina og hljóðið í grasinu að drekka morgundöggina.“ Meistarinn kinkaði samþykkjandi kolli. ,,Að heyra það sem eyrað nemur ekki,“ bætti hann við, ,,er nauðsynlegur eiginleiki til að vera góður leiðtogi. Því þá fyrst þegar leiðtoginn hefur lært að hlusta af nærgætni á hjörtu fólksins, heyrandi tilfinningar sem ekki eru tjáðar, sársauka sem haldið er aftur af og kvartanir sem ekki eru nefndar, getur hann vonast til að blása fólki sínu trausti í brjóst, skilja að eitthvað sé að og uppfylla raunverulegar þarfir þegna sinna. Hnignun ríkja verður þegar leiðtogar þeirra hlusta aðeins á yfirborðsleg orð og fara ekki djúpt inn í sálir fólksins til að heyra raunverulegar skoðanir, tilfinningar og langanir þeirra.“

Þessi dæmisaga birtist í Harvard Business Review á 10. áratug síðustu aldar, þegar tímaritið var að leita að góðum ráðum til stjórnenda. Mér finnst að fleiri stjórnendur ættu að temja sér það sem þarna kemur fram. Góður leiðtogi hlustar á hið ósagða.

Tekið skal fram að ég birti þessa dæmisögu ásamt nokkrum öðrum á Moggablogginu í maí og júní árið 2007, þegar mér fannst þáverandi ríkisstjórn vera að missa tengsl við þjóðina.

Greinina birti Marinó á eigin Facebooksíðu. Hún er birt hér með leyfi Marinós. Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: