Stjórnmál Aðgangur að öflugu heilbrigðiskerfi er einn helsti mælikvarðinn á lífsgæði. Við stjórnmálamenn getum gert alls kyns áætlanir, gefið loforð um betri þjónustu eða lægri kostnað – en við gerum þó ekkert án fólks sem hefur sérfræðiþekkingu og menntun sem þarf til að bjóða hér upp á góða og örugga heilbrigðisþjónustu.
Það er skortur á heibrigðismenntuðu fólki á heimsvísu og samkeppnin um fólk er mikil. Íslenska þjóðin er að eldast og við þurfum enn fleira heilbrigðismenntað starfsfólk á næstu árum. Nýsköpun og bætt verklag getur dregið úr mannaflaþörf og létt undir með starfsmönnum en það breytir því ekki að nauðsynlegt er að fjölga háskólamenntuðu heilbrigðisstarfsfólki. Við verðum að útskrifa fleiri nemendur og við verðum að skapa þannig umhverfi að þeir sem mennta sig erlendis vilji koma heim aftur og starfa hér á landi.
Ég setti nám í heilbrigðisvísindum í forgang strax í upphafi kjörtímabils og við ríkisstjórnarborðið hafa verið lagðar fram sameiginlegar aðgerðir í þágu heilbrigðismenntunar.
Ein helsta hindrunin í fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum hefur verið verknámið á heilbrigðisstofnunum. Verklegi þáttur námsins hefur verið flöskuhálsinn þar sem heilbrigðisstofnanir hafa hvorki aðstöðu né mannskap til að taka á móti fleiri nemendum.
Þess vegna tókum við heilbrigðisráðherra höndum saman og settum fjármagn í færni- og hermisetur en þar er tæknin nýtt til að herma eftir raunverulegum aðstæðum í öruggu umhverfi undir leiðsögn án þess að heilsu og lífi sjúklings sé stefnt í hættu. Nýsköpun og tækninýjungar eru nýttar við þjálfun nemenda og vegna þessa getum við fjölgað nemendum í heilbrigðisgreinum verulega næstu árin.
Árangurstengd fjármögnun háskóla tryggir að heilbrigðisvísindi verði betur fjármögnuð en áður. Framkvæmdum við hús Heilbrigðisvísinda HÍ var flýtt og við höfum forgangsraðað fjárveitingum til heilbrigðisvísindasviða háskólanna.
Íslenska heilbrigðiskerfið er hvort tveggja í senn umfangsmesti hlutinn í rekstri hins opinbera og sá stærsti í útgjöldum. Með því að nýta nýsköpun og stafrænar lausnir getum við bætt starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks til muna, dregið úr kostnaði til lengri tíma og bætt þjónustu við sjúklinga. Mikilvægt er að minnka þann tíma sem læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk verja við skriffinnsku, tíma þeirra er betur varið í það að sinna fólki.
Það hefur verið forgangsmál að innleiða nýsköpun í íslenska heilbrigðiskerfið með Fléttunni þar sem fjöldi heilbrigðisstofnana fær stuðning til að innleiða nýjar lausnir. Það er verk að vinna og mikilvægt að við nýtum nýsköpun og innleiðum tækninýjungar um leið og við fjárfestum í menntun og fjölgum menntuðu heilbrigðisstarfsfólki.
Fjárfestum í fólki og tækni – fyrir fólk.