Davíð Oddsson, langlaunahæsti blaðamaður landsins, tekur undir fullyrðingar um að samfélagið þoli aðeins fjögurra prósenta hækkun til verkafólks.
„Umræða um kjaramál er algjörlega úti á túni um þessar mundir. Umbrot í verkalýðshreyfingunni ýta undir það. Þar geta menn haldið völdum áratugum saman, eða brotist til valda þar í krafti 10% atkvæðanna þegar hinir sofa og búið svo í tveimur heimum samtímis. Annars vegar með sverustu valdatauma þjóðfélagsins í höndunum í krafti þess ofsafjár sem almenningur í sveita síns andlits hefur önglað saman um langa hríð eða að ræða af trúarhita um þá skömm sem lægstu launum fylgir, þótt þau séu hærri hér en annars staðar,“ er mat Davíðs Oddssonar á stöðunni innan verkalýðshreyfingarinnar.
„Nú hefst samningalotan…“, skrifar hann, og; „…á því að menn úti í bæ tilkynna að 4% kaupmáttaraukning sé það sem þjóðfélagið þoli í framhaldi af 20-30 prósenta kaupmáttaraukningu síðustu örfárra ára. Í fyrirmyndarríki Evrópusambandsins, Þýskalandi, hefur engin kaupmáttaraukning orðið í 18 ár, samkvæmt tölum sem þaðan berast, og er almenn sátt um það þar að það sýni algjöra snilld.“
„En nú hafa menn utan úr bæ smíðað lægsta þröskuldinn sem kraftmiklir leiðtogar Verkalýðshreyfingarinnar verða því, heiðurs síns vegna, að þjóta hátt yfir á stöng, svo helst minnir á Valbjörn Þorláksson. Ella verði ályktað að byltingin þeirra hafi verið óþörf. Þeir höfðu verið að reyna að beina umræðunni í aðrar áttir með því að benda á að baráttan nú snerist um kulnun í starfi sem væri að naga lífslöngun og tilgang úr fólki í tugþúsundatali.“