Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, skrifar áramótagrein í Moggann. Rétt eins og aðrir formenn flokka átta sem eiga sæti á Alþingi. Inga er trú sinni skoðun. Hér á eftir fer loka kaflinn í grein Ingu. Áður en við förum í ræðu kaflann er ágætt að benda á að fyrirsögn greinar Ingu er: „Skammist ykkar, vanhæfa ríkisstjórn“.
„Það liggur fyrir að fáir kjörnir fulltrúar hafa nokkurn tímann á lífsleiðinni þurft að lifa við fátækt. Verk þeirra sýna fram á að þeir eru ófærir um að setja sig í spor þeirra sem lifa í sárri neyð. Ég efast ekki um að ef þeir þekktu þetta á eigin skinni þá væri fyrir langa löngu búið að leiðrétta þetta þjóðarmein, þessa þjóðarskömm sem er í einu og öllu mannanna verk.
Svo einkennilegt sem það er þá virðast alltaf vera til nægir peningar fyrir græðgina, auðvaldið og snobbið. En það eru ekki til fjármunir til að veita blásnauðu eldra fólki jólabónus fyrir jólin. Ég gaf stjórnarflokkunum margoft tækifæri til að skipta um skoðun í atkvæðagreiðslum um jólabónus til eldra fólks nú fyrir jólin og færa sig yfir í mannúðina með því að skipta um skoðun og færa nei yfir í já. Allt kom fyrir ekki, þeim varð ekki haggað frekar en fyrri daginn og NEI var áfram NEI.
Hugsið ykkur þá staðreynd, þann hrylling, að árlega deyja á Íslandi um hundrað einstaklingar úr fíknisjúkdómnum. Á meðan hefur ríkisstjórnin valið að snúa baki við þessum lífshættulega sjúkdómi. Allar tillögur Flokks fólksins um auknar fjárveitingar til þeirra stofnana sem sinna þessu fárveika fólki og veita þeim lífsnauðsynlega meðferð hafa verið felldar. Þetta speglar hugarfar ríkisstjórnar sem lætur sér á sama standa þótt fólkið okkar deyi í hrönnum vegna lífshættulegs sjúkdóms og skorts á læknishjálp. Tugir deyja árlega á biðlistum eftir hjálp. Hvort er þetta mannvonska eða fordómar eða kannski sitt lítið af hvoru sem ræður hér för?
Hvernig getur nokkur ríkisstjórn réttlætt það að eyða milljörðum í glæsihallir, erlendan stríðsrekstur og tilhæfulausar snobbráðstefnur á meðan þúsundir þurfa að treysta á hjálparstofnanir til að lifa af? Eitt er víst að ég myndi aldrei sitja í slíkri stjórn.“