- Advertisement -

Þjóð getur ekki lifað við lygar alla daga

„Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki fréttir af bólusetningum á Íslandi. Um daginn voru fréttir af umræðum á þingi þar sem einhverjir þingmenn voru að spyrja hvernig gengi, létu á sér heyra að það gengi ekki nógu vel. Þar fullyrti Svandís heilbrigðis á móti að það gengi bara víst vel. Stefnt hefði verið að því um áramótin að búið yrði að bólusetja um 45 þúsund manns fyrir lok mars en nú virtist sem það myndi ekki takast að fullu, ný áætlun segði 43 þúsund manns fyrir lok mars. Ég kíkti þá inn á covid.is og sá að þá var búið að bólusetja um 13.500 manns og hugsaði; hef ég misst af frétt um stóru sendingu eða eitthvað? Hvernig ætla þau að klára að bólusetja næstum 30 þúsund til viðbótar á hálfum mánuði? 13.500 á tveimur og hálfum mánuði en svo tæp 30 þúsund á hálfum mánuði? Humm.“

Þannig skrifar Gunnar Smári Egilsson.

„Þetta var fyrir sex dögum. Í morgun kíkti ég aftur inn á covid.is. Þar sést að búið er að bólusetja rétt um 15 þúsund. Sem sagt 1.500 manns á sex dögum, um 250 á dag. Ef það á fara með þessa tölu upp í 43 þúsund þyrftu 3.500 að fá fulla bólusetningu þá daga sem eftir lifir mánaðarins, þar er 14faldur hraði miðið við síðustu sex daga. Og það eru bara tæplega 23 þúsund sem eru komin með fyrstu sprautu, svo þótt þeir fengju allir seinni sprautuna fyrir mánaðarlok þyrfti að gefa um 5 þúsund manns bæði fyrstu og seinni á þessum átta dögum, sem mér skilst að sé tæknilega ómögulegt. Ég held að það hafi liðið þrár vikur á milli sprautnanna hjá mömmu.

Við höfum lifað við það í gegnum kórónafaraldurinn að ráðherrarnir hafa sagt allskonar sem síðar reyndist ekki vera innistæða fyrir. Þeir stórlega ýktu efnahagsaðgerðirnar sem þeir kynntu og margt af því sem þar var kynnt fór seint í gang og af mun minna afli en tilkynnt hafði verið, sumt reyndist tóm blaðra.

Mest annað af flugeldasýningum ráðherranna hafa reynst vera stórkostlegar ýkjur um eigið ágæti og snilli.

Í raun eru það bara atvinnuleysisbæturnar sem hafa virkað í takt við það sem kynnt var. En það er kreppuvörn gegn atvinnuleysi sem verkafólk vann sér inn með verkföllum 1956 og því ekki verk þessarar ríkisstjórnar. Hlutabætur og lenging tekjutengda tímans eru þekkt útfærsla á atvinnuleysisbótum í efnahagssamdrætti, voru t.d. notaðar eftir Hrunið 2008. Mest annað af flugeldasýningum ráðherranna hafa reynst vera stórkostlegar ýkjur um eigið ágæti og snilli.

Og við höfum lifað með þessu, sætt okkur við þetta eins og hluta af faraldrinum, eins og andlitsgrímurnar, samkomutakmarkanir og annan ófögnuð. Fjölmiðlar hafa tekið þá stefnu að sannleikurinn verði að víkja fyrir samstöðunni, hafa haldið áfram að flytja fréttir af kynningarfundum ráðherranna eins og þar sé sagt satt og rétt frá, að frá yfirvöldum komi sannleikurinn. Við sitjum svo heima eins og íbúar Sovétríkjanna, föst í veröld sem gengur ekki upp; heyrum eitt en sjáum svo eitthvað allt annað.

Í gær var einn svona fundur. Þar sögðu ráðherrarnir að ljóst væri að aðgerðir þeirra hefðu tekist frábærlega eins og tölur sýndu. Samt sýndu tölurnar versnandi horfur, minni hagvöxt og meira atvinnuleysi. Og fréttafólkið flutti okkur frásögn ráðherranna eins og það væri í vinnu hjá Saudí Arabíska sjónvarpinu; að konungsfjölskyldan hefði talað og sagt að allt væri á réttri leið fyrir hennar tilverknað. Og þannig hlyti það því að vera. Annars hefði Allah ekki fært okkur þessa konungsfjölskyldu.

Við verðum að komast út úr þessu ástandi. Þjóð getur ekki lifað við lygar alla daga. Það er ekki hægt að flytja ritstjórnarvaldið og fréttaskýringar yfir á ráðherra ríkisstjórnarinnar og upplýsingafulltrúa ráðherranna (sem reyndar eru fleiri en fréttastofa Ríkisútvarpsins). Þegar stjórnvöld ljúga um allt, meira að segja tölu bólusettra, þá ríður á að fréttafólk segi satt.

Blaðamaður sem sættir sig við það hlutverk er ekki blaðamaður heldur hluti af áróðursbatteríi yfirvalda.

Lýðræðisbylting síðustu aldar snerist ekki bara um almennan kosningarétt heldur fór hún fram alls staðar í samfélaginu. Konur kröfðust áheyrnar og að tillit yrði tekið til hagsmuna sinna, fatlaðir og samkynhneigðir líka, háskólanemar vildu ráða námi sínu, verkafólk móta kjör sín, aldraðir hvernig búið var að þeim o.s.frv. Í stað einnar miðju ríkisvalds, hvort sem það var undir kóngi eða borgarastétt, kom veröld með margar miðjur ólíkra hópa með ólíka hagsmuni.

Þessi bylting umbreytti fjölmiðlum. Þeir fluttu fókus sinn frá yfirvaldinu og færðu hann niður á jörðina, hættu að vera ríkisvalds- eða embættismannakirkja og urðu leikmannakirkja, þar sem spennan í samfélaginu var kannski mest á milli almennings og ríkisvalds. Þetta eru þeir fjölmiðlar sem við flest þekkjum, eins og þeir voru á Íslandi (meira og minna) frá miðjum áttunda áratugnum og fram að Hruni 2008.

Eftir Hrun er eins og hafist hafi afturhvarf til fyrra tíma, fókus fréttaumfjöllunar fer frá almenningi aftur til yfirvalda. Í umfjöllun um slys og áföll fór fókusinn frá þolendum og vitnum yfir á svokallaða viðbragðsaðila. Kórónafaraldurinn varð ekki faraldur smitsjúkdóms með sjúklingum og dánum, heldur sóttvarnaraðgerð stýrð úr höfuðstöðvum. Og efnahagslífið hætti að vera virkni okkar í samfélaginu heldur einskonar sýndarveröld ráðherranna. Við erum lent í einhverri dystópíu, framtíðinni sem enginn vildi og var svo fjarlæg að aðeins fáir óttuðust. Það er kannski þess vegna sem hún er að rætast.

En hvað um það. Kæra fjölmiðlafólk, þetta gengur ekki lengur. Ykkar vinna er ekki að vera farvegur lyginnar fyrir stjórnvöld. Þegar þau segja ósatt verðið þið að segja satt. Sá sem ber ósannindi út er samverkamaður lyginnar. Blaðamaður sem sættir sig við það hlutverk er ekki blaðamaður heldur hluti af áróðursbatteríi yfirvalda. Það er ekki til skammarlegra hlutverk. Hættið þessu, áður en þið fyrirgerið sál ykkar og æru.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: