Styrmir Gunnarsson skrifaði:
„Svari hún því til að hún sé opin fyrir slíku samstarfi áfram getur hún verið að hrekja stóran hóp kjósenda frá flokki sínum.“
„Könnun sem Maskína gerði fyrir Vísi.is um afstöðu kjósenda til áframhaldandi stjórnarsamstarfs núverandi stjórnarflokka setur forystu VG í mjög erfiða stöðu. Niðurstaða könnunarinnar var að 71 prósent af kjósendum VG er andvígt því að VG haldi því samstarfi áfram,“ skrifar Styrmir Gunnarsson í sína vikulegu Moggagrein.
„Þessi könnun verður til þess að þjarmað verður að Katrínu Jakobsdóttur um að gefa skýr svör um hennar afstöðu. Svari hún því til að hún sé opin fyrir slíku samstarfi áfram getur hún verið að hrekja stóran hóp kjósenda frá flokki sínum,“ skrifar Styrmir. Styrmir heldur áfram: „Niðurstaða könnunarinnar kemur þeim ekki á óvart sem eitthvað þekkja til viðhorfa fólks á vinstri kantinum. Þar er andúðin á Sjálfstæðisflokknum mikil. Að hluta til eru það leifar frá dögum kalda stríðsins en hjá yngri kynslóðum tengist sú andúð þróun viðskiptalífsins síðustu þrjá áratugi. Sennilega vita yngri kynslóðir á vinstri kantinum ekki að bæði Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag stóðu að þeirri lykilákvörðun, ásamt Framsókn, að gefa framsal veiðiheimilda frjálst án þess að taka upp auðlindagjald um leið.“
Hér er önnur tilvitnun í Styrmi: „Einhverjir kjósendur VG munu líta svo á að með því að kjósa VG séu þeir að tryggja Sjálfstæðisflokknum aðild að ríkisstjórn. Þess vegna verður þrýstingurinn á Katrínu að útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn mjög mikill og kannski óbærilegur. Það hjálpar svo ekki til að hálendisfrumvarpið náði ekki í gegn.“