Þingstörfin flutt í stjórnarráðshúsið
Í fyrrgreindu Moggaviðtali segist Katrín Jakobsdóttir ánægð í starfi forsætisráðherra. Það hefur svo sem ekki leynt sér. En það er annað.
Katrín er spurt hvort hún sé ánægð með samstarfið í ríkisstjórninni. Hún er það svo sannarlega. Barmar sér samt aðeins hér og þar í viðtalinu. Það er víst svo erfitt að vera í ríkisstjórn.
Annað er eftirtektarvert í viðtalinu, það er en hvað er erfitt að vera í ríkisstjórn. Þessi hluti viðtalsins er merkilegur:
„Það gerir líka að verkum að við erum að leysa alls kyns mál við ríkisstjórnarborðið, sem áður hefðu farið í ágreining inni í þingsal og hugsanlega verið fundnar einhverjar málamiðlanir þar. Nú erum við að ná ýmsum málamiðlunum fyrr, inni í ríkisstjórn, og þar er tekist á um margt, án þess að það verði að einhverjum háværum eða langvinnum deilum úti í þjóðfélaginu.“
Sem fyrrum þingfréttamaður og að hafa fylgst með stjórnmálum í áratugi man ég bara ekki eftir yfirlýsingu sem þessari. Að það sé keppikefli forsætisráðherra að umræða um einstaka mál ríkisstjórnar sé kláruð í stjórnarráðshúsinu. Ekki á Alþingi.
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar nefnist: „Sáttmáli Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis.“
Hvaða vitleysa er í gangi? Í umræðunni hefur verið að hin eiginlega fjárlagavinna og ákvarðanir hafi verið teknar frá fjárlaganefnd og sé nú nánast alfarið í fjármálaráðuneytinu. Fjárlaganefnd stimpli svo það sem þaðan kemur. Nú bætist við að ríkisstjórnin hefur aftengt sjálft Alþingi og klári umræðu um eigin mál við Lækjargötu. Er þetta efling Alþingis?
-sme