- Advertisement -

Þingnefndin klóraði sér í höfðinu

- enn er rætt um samgönguáætlun og Jón Gunnarsson

„Ég sat sjálfur sem varamaður í umhverfis- og samgöngunefnd fundi þar sem við klóruðum okkur í höfðinu yfir þessu,“ sagði Óttarr Proppé heilbriðgisráðherra á Alþingi í gær.

Flokksformennirnir, Logi Einarsson Samfylkingu, og Óttarr Proppé Bjartri framtíð, áttu í orðaskiptum um samgönguáætlun og fyrirætlan Jóns Gunnarssonar í umræðum á Alþingi í gær.

Logi byrjaði, hann sagðist vilja spyrja Óttarr; „…um ástæður þess að ríkisstjórnin ætlar að hafa samgönguáætlun að engu, samgönguáætlun sem hann samþykkti rétt fyrir kosningar á sama tíma og hann lofaði betri vinnubrögðum, nýrri pólitík og minna fúski. Samþykkt samgönguáætlunar var í anda nýrra stjórnmála. Það náðist um hana samstaða þvert á flokka. Nú er hoppað frá borði og menn hyggjast ekki uppfylla hana.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Logi hélt áfram: „Þó lá fyrir, líka fyrir kosningar, hvað framkvæmdirnar myndu kosta. Það gengur ekki að lausnin sé eingöngu sú sem hæstv. samgönguráðherra hefur boðað, að veggjöld í kringum höfuðborgarsvæðið, sem voru ekki rædd fyrir kosningar, eigi að standa undir þessu, annars verði ekkert gert.

Björt framtíð boðaði, fyrir kosningar að draga úr fúski í stjórnmálum.

 „Flokkast þetta undir fúsk, herra heilbrigðisráðherra?“ 

Samgönguáætlun sem er í gildi var samþykkt við mjög sérstakar aðstæður, eins og hv. þingmaður veit. Hún var lögð fram skömmu fyrir kosningar. Það var vitað þegar hún var lögð fram að hún væri ekki í takti við gildandi fjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar. Ég sat sjálfur sem varamaður í umhverfis- og samgöngunefnd fundi þar sem við klóruðum okkur í höfðinu yfir þessu. Vissulega var ákveðin bjartsýni í huga okkar um að betur gengi svo hægt væri fjármagna samgönguáætlun. Það kom síðan í ljós í vinnu fjárlaganefndar fyrir jólin þegar verið var að samþykkja og vinna að fjárlögum fyrir árið í ár að það tókst að bæta örlítið í til þess að koma til móts við það sem á skorti í samgönguáætlun,“ svaraði Óttarr.

Óttarri þykir þetta mál vera til vandræða.

„Ég get tekið undir að þetta er vandræðamál. Við vitum vel að innviðir hafa verið undirfjármagnaðir allt frá hruni. Það á ekki síst við í vegaframkvæmdum.

Logi kom aftur í ræðustól.

„Hæstvirtur ráðherra sér ekki ástæðu til að svara beint þeim fjórum spurningum sem ég beindi til hans. Ég bið hann þá að svara einni: Telur hæstv. ráðherra að vinnubrögð hæstv. ráðherra séu eðlileg eða telur hann að þau séu fúsk? Svo hann svari þessu.

Og að lokum: Telur hæstv. ráðherra að vanfjárfesting í samgöngum bitni á öðrum málaflokkum, þar með talið heilbrigðismálum? Ég nefni sérstaklega erfiða sjúkraflutninga og auðvitað þau allt of mörgu slys sem orðið hafa á síðustu árum.“

Óttarr heilbrigðisráðherra átti lokaorðið.

„Ég tel að vanfjármögnun í samgöngukerfinu bitni á öðru, það segir sig sjálft. Við höfum því miður séð fjölgun slysa, sérstaklega með mjög mikilli aukningu í ferðamennsku, aukinni umferð, sérstaklega á ákveðnum landsvæðum, og er það rakið beint til ástands vega, til einbreiðra brúa o.s.frv., þannig að okkur er mikið verkefni á höndum.

 

Ég hef sagt það áður í þessum stól að u.þ.b. tíundi hver sjúklingur á gjörgæsludeildum Landspítalans er ferðamaður eftir slys.  Þetta eru vandamálin.“

 

En hvað um framgöngu Jóns Gunnarssonar?

„Mér þykja vinnubrögð ráðherra vera í takt við þá stöðu sem við höfum verið í þar sem síðasta þing samþykkti samgönguáætlun sem var vanfjármögnuð og við þurfum að vinna úr þeim málum. Mér finnst mjög mikilvægt að ráðherra komi fyrir umhverfis- og samgöngunefnd og fagna því að búið sé að ákveða slíkt.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: