Fréttir

Þingnefnd í blindflugi

- vandlifað ef ekki er hægt að koma til móts við þær athugasemdir sem fram koma við meðferð máls í þinginu öðruvísi en að það sé kallað ofbeldi og hneyksli, segir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks.

By Miðjan

May 22, 2017

„Sannleikurinn getur verið erfiður,“ sagði Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna vegna vendinga í áfengisfrumvarpinu.

„Þannig er það oft, en við verðum að horfast í augu við það frekar en að sópa sannleikanum undir teppið. Hér fyrir helgi beitti meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar aflsmunum til að taka frumvarp um verslun með áfengi og tóbak úr nefndinni þrátt fyrir að ekki lægju fyrir umsagnir velferðarnefndar, fjárlaganefndar eða Hagfræðistofnunar, sem við í nefndinni höfðum óskað eftir. Þetta blindflug meiri hluta nefndarinnar snýst mögulega um það að sópa undir teppið sannleikanum, gagnrýnisröddunum, sem benda á neikvæð áhrif á lýðheilsu, sem benda á áhrif á ríkisbúskapinn og sem benda á neikvæð þjóðhagsleg áhrif af því að opna fyrir sölu áfengis í verslunum. Það er ólíðandi, frú forseti, að mál séu tekin úr nefnd án þess að um þau hafi verið fjallað,“ sagði Andrés Ingi.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, kom í ræðustól og sagðst ekki eiga sæti í allsherjar- og menntamálanefnd og hann hafi ekki fylgdst með umræðum þar. „Það sem mér virðist hins vegar hafa gerst og vekja þessi sterku viðbrögð er það að meiri hluti nefndarinnar hefur tekið tillit til helstu athugasemda sem fram komu við þetta frumvarp. Frumvarpið var gagnrýnt vikum saman í þinginu fyrir það að það væri algjör ósvinna að setja áfengissölu í almennar verslanir. Breytingartillögurnar sem hér eru á borðinu gera ráð fyrir að svo verði ekki heldur að áfengi verði selt í sérverslunum. Með öðrum orðum er það mikla hneyksli sem hér er talað um fólgið í því að flutningsmenn og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hafa tekið tillit til helstu athugasemda sem fram hafa komið við frumvarpið sem er um að ræða. Það er auðvitað dálítið vandlifað ef ekki er hægt að koma til móts við þær athugasemdir sem fram koma við meðferð máls í þinginu öðruvísi en að það sé kallað ofbeldi og hneyksli.“