Þingmönnum Sjálfstæðisflokks er ekki treystandi
„Og þá vaknar spurningin: er þetta nóg?“
Styrmir Gunnarsson berst fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um þriðja orkupakkann. Hann efast um að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ráðherrar njóti trausts flokksmanna.
„Og þá vaknar spurningin: er þetta nóg? Er hægt að treysta því fólki, sem þannig hefur hagað málflutningi sínum í sambandi við þetta mál, fyrir framhaldinu? Geta þingmenn Sjálfstæðisflokksins sýnt flokksmönnum sínum fram á að verði til annars konar meirihluti á Alþingi með aðild Samfylkingar og Viðreisnar, renni samþykki slíks meirihluta Alþingis ekki viðstöðulaust í gegn? Nei. Þeir geta það ekki,“ skrifar Styrmir á vefsíðu sína; styrmir.is.
Grein Styrmis byrjar svona: „Undanfarið rúmt hálft ár frá því að umræður hófust að ráði um Orkupakka 3 hafa ráðherrar og aðrir talsmenn ríkisstjórnar og stjórnarflokka haldið því fram, að athugasemdir og viðvaranir vegna hans væru ekki á rökum reistar og engin hætta á ferðum í sambandi við yfirráð okkar Íslendinga yfir orku fallvatnanna yrði hann samþykktur á Alþingi.
Nú bregður svo við að þetta sama fólk snýr við blaðinu og staðfestir í raun að það sem sagt hefur verið af hálfu ríkisstjórnar um þetta mál hafi ekki haft við rök að styðjast.
Þess vegna hafi ríkisstjórnin ákveðið að leggja málið fyrir þingið með fyrirvörum. Hinn svonefndi stjórnskipunarvandi verði settur til hliðar að sinni og að sæstrengur verði ekki lagður milli Íslands og Evrópu nema með samþykki Alþingis.
Ljóst er að með þessum hætti vonast ríkisstjórnin til að lægja þær öldur, sem hafa risið, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins, vegna þessa máls.“
Og svo þetta: „Þess vegna fer bezt á því að þjóðin sjálf taki þetta mál í sínar hendur eins og í Icesave og það verði lagt undir þjóðaratkvæði.“
Fyrirsögnin er Miðjunnar.