„Ég óttast að ef allir fundir yrðu opnir þá værum við svolítið komin í sama leikrit og á sér stað hér í þingsal þar sem fólki finnst mjög gaman að hlusta á sjálft sig tala en minna gaman að hlusta á aðra tala, eins og frægt er orðið. Það er þetta leikrit þar sem fólk setur sig í ákveðnar stellingar í því að vera með skýra afstöðu,“ sagði Bryndís Haraldsdóttir Sjálfstæðisflokki, í umræðu um hvort rétt sé að hafa funda nefnda þingsins opna.
„Sem stjórnmálamaður ertu líka að bjóða fram þína afstöðu, þá afstöðu sem þú hefur til málanna, en ég held að það sé mjög mikilvægt að þingmenn geti komið að málum svolítið kaldir, þ.e. ekki með mótaða afstöðu, og notað tækifærið í störfum nefndanna til að móta sér afstöðu í málunum. Ég óttast að það ferli myndi að einhverju leyti glatast ef við hefðum alla nefndarfundi opna og í raun að það myndi kalla á fundinn fyrir fundinn eða fundinn eftir fundinn, sem ég held að sé mjög oft raunin. Þegar allt fer fram fyrir opnum tjöldum er svolítið búið að afgreiða mál sem mega ekki alveg eiga heima fyrir opnum tjöldum; þegar fólk er að ræða sig saman að einhverri niðurstöðu er haldinn fundur fyrir eða eftir fundinn og það er líka stundum þannig að ekki hafa allir aðgang að þeim fundum.“