Fréttir

Þingmenn vöknuðu við prestinn

By Miðjan

November 16, 2018

Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahússprestur skrifaði fína grein um fíkniefnavandann og um framgöngu handrukkara. Hafi hann þökk fyrir.

Hitt er aftur verra að þingmenn, sumir hið minnsta, virðast ekkert hafa vitað af vandanum fyrr en presturinn ágæti talaði. Viðbrögðin voru skýr, fáum séra Vigfús Bjarna á nefndarfund, heyrðist úr þingheimi.

Þingmönnunum hefur trúlega ekki komið til hugar að fá á fundi sína fólk sem hefur villst inn í ömurleikann. Þeim hefur þá ekki komið til hugar að fá fíkla á sinn fund eða meðþolendur þeirra, það er nánustu fjölskyldur. Má vera að það fólk sé ekki nógu fínt fyrir þingmennina og sali þingsins.

Átakanleg frásögn móður fíkils er í Mogganum í dag. Þingmenn lesa væntanlega Moggann, auðvitað á ríkisins kostnað, og vonandi opnast einhver lokuð augu við lesturinn.

„Í dag skildi ég fár­sjúk­an son minn eft­ir í sjoppu niðri í bæ þar sem ég fór með hann til að gefa hon­um ham­borg­ara. Hann fékk ekki að koma inn á Vog því fyrr­ver­andi kær­asta hans er þar. Þau eru reynd­ar mjög góðir vin­ir og ekk­ert drama orðið þar! Hann er mjög langt leidd­ur sprautufík­ill og við reynd­um að koma hon­um inn á 33A [fíknigeðdeild­in] en þar er allt fullt. Ég skildi hann eft­ir í þess­ari sjoppu og sett­ist inn í bíl og gjör­sam­lega brotnaði sam­an. Ég grét og grét og grét en ég get ekki tekið hann heim í svona ástandi.“

Svona skrif­aði Harpa Hildi­berg Böðvars­dótt­ir á umræðuhópn­um Góða syst­ir um veru­leika sinn sem for­eldri með barn í neyslu og Mogginn birtir í dag.

„Son­ur minn er orðinn 35 ára og ég búin að standa í þessu í 19 ár. Þetta er búið að vera í gangi í mörg ár, maður hef­ur staðið í þess­um spor­um mjög oft,“ seg­ir Harpa í sam­tali við Morg­un­blaðið.

Hún seg­ir ómögu­legt að hafa son sinn inni á heim­il­inu því það verði all­ir eins og fang­ar á eig­in heim­ili, fyr­ir utan það að líferni hans á ekki heima inni á venju­legu heim­ili.

Hún seg­ir biðina eft­ir meðferð hér á landi vera ólíðandi. „Því þú vilt kom­ast inn núna og ert til­bú­inn í það núna svo kem­ur öll þessi bið og þá tek­ur ekk­ert nema dópið við. Svo þegar það kem­ur að því að fara í meðferð eru þau kannski ekki til­bú­in þá og hlaupa út. Þetta er nátt­úr­lega ei­líf bar­átta.“

Hún seg­ir að starfs­fólk Vogs hafi reynt að koma hon­um inn á 33A, sem er fíknigeðdeild­in, en þar sé einnig allt fullt. „Það er bara alltof lítið af lausn­um og alltof lítið af pláss­um,“ seg­ir Harpa.

Sam­kvæmt Ákall átak­inu þá eru 138 rúm­pláss fyr­ir áfeng­is- og fíkni­efna­sjúk­linga á Íslandi árið 2018. Það eru jafn mörg pláss og árið 1978 en lands­mönn­um og fíkl­um fjölgað mikið síðan þá. Um 600 manns eru að jafnaði á biðlista eft­ir meðferð á Vogi. Taka þarf við átta á hverj­um degi, í stað sex, til að út­rýma þess­um biðlista