Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahússprestur skrifaði fína grein um fíkniefnavandann og um framgöngu handrukkara. Hafi hann þökk fyrir.
Hitt er aftur verra að þingmenn, sumir hið minnsta, virðast ekkert hafa vitað af vandanum fyrr en presturinn ágæti talaði. Viðbrögðin voru skýr, fáum séra Vigfús Bjarna á nefndarfund, heyrðist úr þingheimi.
Þingmönnunum hefur trúlega ekki komið til hugar að fá á fundi sína fólk sem hefur villst inn í ömurleikann. Þeim hefur þá ekki komið til hugar að fá fíkla á sinn fund eða meðþolendur þeirra, það er nánustu fjölskyldur. Má vera að það fólk sé ekki nógu fínt fyrir þingmennina og sali þingsins.
Átakanleg frásögn móður fíkils er í Mogganum í dag. Þingmenn lesa væntanlega Moggann, auðvitað á ríkisins kostnað, og vonandi opnast einhver lokuð augu við lesturinn.
„Í dag skildi ég fársjúkan son minn eftir í sjoppu niðri í bæ þar sem ég fór með hann til að gefa honum hamborgara. Hann fékk ekki að koma inn á Vog því fyrrverandi kærasta hans er þar. Þau eru reyndar mjög góðir vinir og ekkert drama orðið þar! Hann er mjög langt leiddur sprautufíkill og við reyndum að koma honum inn á 33A [fíknigeðdeildin] en þar er allt fullt. Ég skildi hann eftir í þessari sjoppu og settist inn í bíl og gjörsamlega brotnaði saman. Ég grét og grét og grét en ég get ekki tekið hann heim í svona ástandi.“
Svona skrifaði Harpa Hildiberg Böðvarsdóttir á umræðuhópnum Góða systir um veruleika sinn sem foreldri með barn í neyslu og Mogginn birtir í dag.
„Sonur minn er orðinn 35 ára og ég búin að standa í þessu í 19 ár. Þetta er búið að vera í gangi í mörg ár, maður hefur staðið í þessum sporum mjög oft,“ segir Harpa í samtali við Morgunblaðið.
Hún segir ómögulegt að hafa son sinn inni á heimilinu því það verði allir eins og fangar á eigin heimili, fyrir utan það að líferni hans á ekki heima inni á venjulegu heimili.
Hún segir biðina eftir meðferð hér á landi vera ólíðandi. „Því þú vilt komast inn núna og ert tilbúinn í það núna svo kemur öll þessi bið og þá tekur ekkert nema dópið við. Svo þegar það kemur að því að fara í meðferð eru þau kannski ekki tilbúin þá og hlaupa út. Þetta er náttúrlega eilíf barátta.“
Hún segir að starfsfólk Vogs hafi reynt að koma honum inn á 33A, sem er fíknigeðdeildin, en þar sé einnig allt fullt. „Það er bara alltof lítið af lausnum og alltof lítið af plássum,“ segir Harpa.
Samkvæmt Ákall átakinu þá eru 138 rúmpláss fyrir áfengis- og fíkniefnasjúklinga á Íslandi árið 2018. Það eru jafn mörg pláss og árið 1978 en landsmönnum og fíklum fjölgað mikið síðan þá. Um 600 manns eru að jafnaði á biðlista eftir meðferð á Vogi. Taka þarf við átta á hverjum degi, í stað sex, til að útrýma þessum biðlista