„Í því sambandi má nefna nýlega endurskoðaða kjarnorkuvopnastefnu Trump-stjórnarinnar í Washington, sem gerir ráð fyrir mun víðtækari beitingu kjarnorkuvopna en áður hefur verið rætt,“ segir meðal annars í þingsályktunartillögu þingmanna fjögurra; Steinunnar Þóru Árnadóttur, Kolbeins Óttarssonar Proppé, Ara Trausta Guðmundssonar og Ólafs Þórs Gunnarssonar.
„Ríkin sem leitt hafa baráttuna fyrir kjarnorkuvopnabanni á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eru víða í heiminum, en Evrópulöndin sem stóðu að samþykkt málsins voru Svíþjóð, Austurríki, Kýpur, Írland, Malta og Sviss. Illu heilli ákváðu nær öll aðildarríki NATO að sniðganga viðræðurnar um gerð sáttmálans, enda byggist hernaðarstefna bandalagsins enn á því að áskilja sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði,“ segir í greinargerð þingmannanna.
Þar segir einnig: „Andstæðingar kjarnorkuvopna hafa lengi varað við þessari þróun og benda á að eftir því sem meiri orku og fjármunum er varið í þróun og framleiðslu vopnanna skapist meiri þekking sem aftur stuðli að aukinni útbreiðslu. Mannkynið hefur aldrei smíðað vopn sem það beitir ekki að lokum eins og reynslan sýnir.“