Stjórnmál

Þingmenn undir járnhæl Katrínar

By Miðjan

August 27, 2020

„Forsætisráðherra hefur nú tvívegis á þessu kjörtímabili skyldað stjórnarþingmenn til að fella tillögur um að tímabinda veiðiréttinn í fiskveiðistjórnarlögum. Og nú hótar hún að ljúka kjörtímabilinu með því að afgreiða í ágreiningi þjóðareignarákvæði í stjórnarskrá án skilyrða um tímabindingu.“

Það er Þorsteinn Pálsson fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra, sem skrifar þetta í grein í Fréttablaðinu í dag.

„Engu er líkara en hjartað slái ekki með fólkinu í landinu,“ bætir hann við.

Þorsteinn segir í greininni: „Tuttugu ár eru frá því að allir flokkar samþykktu tillögu auðlindanefndar, undir forystu Jóhannesar Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóra, um að skrifa í stjórnarskrá þjóðareignarákvæði um að endurgjald skyldi koma fyrir tímabundinn veiðirétt.

Svipuð tillaga kom síðar frá stjórnlagaráði.

Fyrir þremur árum hafði Sjálfstæðisflokkurinn einn horfið frá sáttinni í auðlindanefnd. Nú hafa allir þrír stjórnarflokkarnir gert það. Enginn þeirra hefur þó reynt að hrekja röksemdir Jóhannesar Nordal og meðnefndarmanna hans.“