Þingmenn Sjálfstæðisflokks í vandræðum
„Þingmenn Sjálfstæðisflokksins lentu í vandræðum síðastliðið sumar. Margir flokksmenn höfðu talað gáleysislega um orkupakkann svonefnda, sem fæstir þeirra þekktu og enn færri skildu. Allt í einu uppgötvuðu forystumenn í flokknum að í pakkanum var ekkert sem gaf ástæðu til þess að vera á móti honum og auk þess voru þeir með afstöðu sinni að setja EES-samstarfið í uppnám.“
Þannig skrifar fyrrverandi Valhellingurinn Benedikt Jóhannesson, nú í Viðreisn. Þetta er eflaust hverju orði sannara. Margir þeirra sáust snúast í heilan hring á augabragði. Greinin er í Mogganum í dag.
„Þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru einu sinni búnir að komast að þeirri niðurstöðu að lauflétt sé að komast fram hjá álitamálum með fullveldið með því einu að gera fyrirvara gagnvart sjálfum sér verða einfaldlega færri kostir um varnir þegar kemur að þeirri stundu að aðildarviðræðurnar fara aftur á dagskrá. Það gæti þess vegna gerst innan þriggja ára.““
Það var Guðmundur Franklín Jónsson sem rifjaði þetta upp í sama blaði. Í grein sinni sagði hann þá þingmenn flokksins sem um er talað vera hryggleysingja. Ekki er annað vitað en Guðmundur sé enn í Sjálfstæðisflokki. Samt er erfitt um það að segja. Flokksfélögum mun fækkar ört.
Benedikt komst að ályktun: „Tvennt veldur því öðru fremur hve lítið álit almenningur hefur á stjórnmálamönnum. Annars vegar hve auðveldlega þeir skipta margir um skoðun, jafnvel sannfæringu, eftir því hvað hentar þeirra frama hverju sinni. Hitt er hve fljótt þeir temja sér hroka og yfirlæti þegar þeir hafa náð þessum frama. Þeir tala niður til andstæðinga og svara með skætingi þegar þeir eru komnir í vanda.“