- Advertisement -

Þingmenn sem fara í fýlu

„Sitjandi þingmenn VG hljóta margir hverjir ekki það brautargengi í prófkjörum sem þeir vonuðust eftir. Af sannri flokkshollustu, þá móðgast sumir þeirra svo mikið, að þeir eru ekki vissir hvort þeir ætli að þiggja sætið sem flokksmenn völdu þá í,“ skrifar Marinó G. Njálsson.

„Ég ber engar taugar til VG og gæti ekki verið meira sama um árangur flokksins í næstu kosningum. Finnst flokkurinn vera almennt fljótur að selja sál sína fyrir frama og ráðherrasæti og lítið standa eftir af hugsjónum hans þegar búið er að tryggja sætin,“ bætir hann við. Og er ekki hættur:

„En hvers konar þingmenn eru það sem móðgast yfir dómi kjósenda flokksins? Til hvers eru þessir einstaklingar þingmenn, ef þeir eru þar eingöngu til að halda sætinu sínu? Hefði haldið að þátttaka í flokksstarfi væri til að vinna flokknum brautargengi. Að kunna að stíga til hliðar, þegar það kemur flokknum til góða, að taka niðurstöðu prófkjöra með reisn, en ekki verða að einhverjum „grenjandi minnihluta“.

Það sýnir hug einstaklinga til flokksins, hver sem flokkurinn er, að fara í fýlu yfir því að ná ekki því sæti sem stefnt var að. Þeim er skít sama um flokkinn og flokksmenn. Það var bara þeirra eigin frami sem skipti máli.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…hafa verið fyrrverandi VG-liðar í ansi mörgum flokkum…

Listinn yfir einstaklinga, sem farið hafa í fýlu yfir vilja flokksmanna, er endalaus jafnt innan Íslands sem utan. Einstaklingar sem hvorki skilja að þeir eru ekki eins frábærir og óaðfinnanlegir og þeir halda né átta sig á mistökunum sem leiddu til þess að þeim var hafnað.

Í gegn um árin hafa t.d. verið fyrrverandi Framsóknarmenn í nánast öllum flokkum og hin síðustu hafa verið fyrrverandi VG-liðar í ansi mörgum flokkum. Að ógleymdum fyrrverandi Samfylkingarfólkinu. Flokksbrot og klofningsframboð orðið til vegna þess að kóngar misstu kórónuna, krónprinsar erfðu ekki krúnuna, keisarar þoldu ekki að þeim var sagt að þeir voru fatalausir, að ógleymdum kaupstaðakrökkum sem þóttu ekkert spennandi í sveitinni og öfugt. Eins og fyrrverandi ritstjóri sagði (þó það sé umorðað hér):

Fullt af prinsipslausu fólki sem hugsar ekkert um neitt annað en hvernig það komist í feitt.

Við komumst að því á næstu dögum hvort það eigi við um þingmenn VG.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: