- Advertisement -

Þingmenn Samfylkingarinnar afneita sósíalismanum

Þetta er náttúrlega klassískur andróður gegn sósíalisma.

Gunnar Smári skrifar:

Í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um skipan nefndar til að meta stöðu og gera tillögur um framtíð Íslands í svæðisbundinni fjölþjóðlegri samvinnu segir meðal annars:

„Heimsmynd kaldastríðsáranna var tiltölulega einföld. Tveir kraftar tókust á, annars vegar vestræn ríki undir forustu Bandaríkjanna og hins vegar sósíalistaríki undir forustu Sovétríkjanna. Hugmyndafræðin greindist í tvennt með sama hætti, þar sem annars vegar voru hugsjónir lýðræðis og frjálsra viðskipta en hins vegar hugmyndaheimur alræðis og sósíalisma.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auðvitað ætti það ekki að koma neinum á óvart að þingmenn Samfylkingarinnar afneiti sósíalismanum með þessum hætti.

Fyrst eftir að kalda stríðinu lauk töldu margir að heimsmálin hefðu einfaldast. Lýðræði og alþjóðavæðing hefðu einfaldlega borið sigurorð af sósíalismanum. Þær krossgötur sem þjóðir heims stóðu á eftir fall Berlínarmúrsins virtust því ekki í fyrstu gefa tilefni til að endurmeta fjölþjóðlegt samstarf.“

Þetta er náttúrlega klassískur andróður gegn sósíalisma, meginfarvegi frelsis- og hagsmunabaráttu alþýðunnar. Undir þetta skrifa þingmenn Viðreisnar (Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson og Þorsteinn Víglundsson) Pírata (Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson og Smári McCarthy) og Samfylkingarinnar (Ágúst Ólafur ÁgústssonGuðjón S. BrjánssonHelga Vala Helgadóttir og formaðurinn Logi Einarsson).

Auðvitað ætti það ekki að koma neinum á óvart að þingmenn Samfylkingarinnar afneiti sósíalismanum með þessum hætti. Þótt sá flokkur hafi orðið til úr þeim stjórnmálaflokkum sem spruttu af sósíalískri verkalýðsbaráttu á síðustu öld, þá hefur Samfylkingin aldrei verið sósíalískur flokkur heldur fyrst og fremst nýfrjálshyggjuflokkur, í grunninn afsprengi áhrifa falls Sovétríkjanna á hugmyndaheim hægrikrata sem birtust hvað skýrast í hægri beygju Verkamannaflokksins breska undir Tony Blair. Það vekur samt undrun að þingmenn Samfylkingarinnar skuli skrifa undir það að sósíalísk barátta tuttugustu aldarinnar hafi ekki verið annað en þjónkun við Sovétríkin og það klíkuræði sem rændi þar völdum.

Því miður hafa hægri kratar á Íslandi ætíð stutt slíkan samjöfnuð.

Að setja samasemmerki milli sósíalisma og Sovétríkjanna væri tæki auðvaldsins á Vesturlöndum til að grafa undan hagsmuna- og frelsisbaráttu hinna kúguðu innan sinna svæða, tæki til að geta sakað þau sem kröfðust réttlætis um að vera handbendi erlends óvinaríkis og þar með ógn við öryggi Vesturlanda. Þetta gekk víða langt, til dæmis á McCarthy-tímabilinu í Bandaríkjunum þegar sósíalismi, verkalýðsbarátta og barátta gegn óréttlæti kapítalismans var skilgreint sem ó-amerísk fyrirbrigði, nánast sem eitur í samfélaginu. Því miður hafa hægri kratar á Íslandi ætíð stutt slíkan samjöfnuð og lagt sig fram um að sverta og grafa undan baráttufólki fyrir bættum kjörum alþýðunnar, viljað gera það samsekt með glæpum þeirra klíka sem náðu völdum og brutu niður lýðræði og réttlæti í mörgum þeirra landa sem kenndu sig við sósíalisma eða alþýðu. En þegar Bandaríkjamenn eru við það að jafna sig og eru aftur farnir að tala um sósíalisma, er undarlegt að sjá þingmenn Samfylkingarinnar djúpt ofan í skotgröfum kalda stríðsins. Og þegar við horfum á þetta fólk í skotgröfum sínum skulum við hafa hugfast að kalda stríð var fyrst og fremst háð gegn róttækari sósíalistum á Vesturlöndum, til að draga úr áhrifum þeirra á mótun samfélagsins. Sovétríkin voru notuð sem óvinur til að grafa undan frelsisbaráttu alþýðunnar á Vesturlöndum; stjórnvöldum á Vesturlöndum var hjartanlega sama um alþýðu Sovétríkjanna og vildu allt gera til að berja niður sjálfsagðar kröfur alþýðunnar á sínum heimaslóðum. Það að Samfylkingarfólk skuli skrifa þetta með fólki úr Viðreisn og Pírötum, sem hvort tveggja eru afkvæmi nýfrjálshyggjutímans, sýnir vel hvar sú klíka stendur sem náð hefur undir sig leifunum af þeim stjórnmálaflokkum sem byggðir voru upp af sósíalískri baráttu síðustu aldar.

Þessir þrír flokkar eru Evrópuflokkarnir á þingi, þeir sem helst berjast fyrir inngöngu Íslands í ESB. Forysta Samfylkingarinnar er augljóslega tilbúin að hrækja á sósíalismann til að trufla ekki samstöðuna með þessum tveimur nýfrjálshyggjuflokkum, sem einnig vilja inn í ESB.

Þingsályktunartillagan fylgir hér, tilvitnaðar setningar eru tvær síðustu málsgreinarnar í fyrsta kafla greinargerðarinnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: