- Advertisement -

Þingmenn sagðir óttast umræðu

Helgi Hrafn svaraði þremur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem öllum var heitt í hamsi, og sagði þá óttast umræðu um greiðslur til þingmanna

Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins létu til sín taka á Alþingi í gær. Þeir vildu ræða fundarstjórn forseta, en tímann notuður þeir til að gagnrýna orð Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur í Silfrinu daginn áður.

Fyrstur þeirra var Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

„…mér finnst farið út fyrir mörk þegar þingmenn á opinberum vettvangi væna aðra þingmenn um refsiverðan verknað án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því, eru með ásakanir um að framin hafi verið saknæm og refsiverð brot, brot á almennum hegningarlögum, og segja, af því að þá sjálfa grunar eitthvað, að fyrir hendi sé rökstuddur grunur.“

Síðar bætti hann þessu við:

Þú gætir haft áhuga á þessum
Birgir Ármannsson og Brynjar Níelsson tóku þátt í umræðunni. Þeim var ekki skemmt.

„Það hefur ekkert komið fram í sambandi við akstur þingmanna sem gefur tilefni til þess að ætla að framin hafi verið refsiverð brot. Það er ekkert sem komið hefur fram um það.“

Þingmenn skammist sín

Brynjar Níelsson var næstur:

„Menn eru auðvitað að misskilja þetta. Það er alvarleg ásökun sem menn nota ekki, hvorki í pólitískum tilgangi né öðrum, að segja að það sé rökstuddur grunur um hegningarlagabrot eða refsiverða háttsemi. Menn eiga í raun og veru að skammast sín fyrir að nota svona,“ sagði hann.

Brynjar kom aftur í ræðustól:

„Hér liggja engin gögn fyrir um það og engin umræða í samfélaginu breytir því, þó að það geti verið umræða í samfélaginu um að hugsanlega hefði þingmaðurinn ekki átt rétt á einhverjum af þessum greiðslum. En til þess að það sé brot þá þarf hann að blekkja. Hann þarf að blekkja út peninga, hann þarf þá að skrifa rangan texta eða eitthvað slíkt,“ sagði hann.

Mokum ekki yfir skít

Jón Gunnarsson var síðastur þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Hann sagði: „Hér er verið að ásaka starfsmenn þingsins, forseta þingsins um að sinna ekki hlutverkum sínum, sinna ekki vinnuskyldum sínum. Gefið er í skyn að horft sé fram hjá augljósum lögbrotum sem hafi átt sér stað hjá háttvirtum þingmönnum. Það er algjörlega óviðeigandi og alveg nýtt í mínum huga að slíkt skuli vera tekið upp á vettvangi þingsins, í þingsal.“

Og Jón sagði einnig:

„En verið er að reyna að tortryggja málin, virðulegur forseti, með þeim hætti að fólk úti í bæ, sem getur eðlilega ekki verið eins vel inni í málunum, haldi að verið sé að reyna að moka hér yfir einhvern skít. Slíkt er ómerkilegur málflutningur, virðulegur forseti. Hann er ekki viðeigandi og hann er ekki samboðinn þinginu.“

Kvarta undan umræðunni

„…í grundvallaratriðum er verið að kvarta undan því að þetta mál sé rætt. Í grundvallaratriðum er verið að kvarta undan því að haft sé orð á því að stofnanir samfélagsins sinni ekki eftirlitsskyldum sínum, hvort sem það er Alþingi, aðrar stofnanir eða þingmenn. Og þessi ofboðslegi ótti við að það sé yfir höfuð rætt finnst mér segja sína sögu þegar það kemur frá háttvirtum þingmanni Jóni Gunnarssyni,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: