Þingmenn ósáttir við fjölmiðla
„Það er hreinlega mín upplifun og ég ætla ekki að biðja þingmenn í þessum þingsal afsökunar á því,“ sagði Bjarni Benediktsson þegar hann sagði fjölmiðla vera tóma skel.
Víst má telja að þingflokksformaður Vinstri grænna, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, talaði ekki aðeins um eigin hug, heldur og margra annarra þingmanna, þegar hún fann að hvernig og hvaða fréttir fjölmiðlar flytja af stjórnmálunum. Hún er ósátt við fjölmiðla. Segir þá nánast vera óvini fólksins, það er stjórnmálafólksins.
Á þingi er einn fyrrverandi góður blaðamaður. Það er Helga Vala Helgadóttir Samfylkingunni. Hún skrifar um Bjarkeyju og innlegg hennar um fjölmiðla í grein sem birt er í Mogga dagsins.
Helga Vala skrifar:
„Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjallað um traust á stjórnmálum. Sett var á laggirnar prýðileg nefnd sem skilaði af sér verki í liðinni viku og áfram höldum við.
Bjarni Benediktsson um íslenska fjölmiðla
„…þá sitja viðkomandi fjölmiðlar eftir sem tóm skel…“
„…ég ætla ekki að biðja þingmenn í þessum þingsal afsökunar á því.“
Í gærmorgun ræddust við í morgunútvarpi Rásar eitt þingmenn tveggja flokka, þær Hanna Katrín Friðriksson, Viðreisn, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, VG. Þær ræddu meðal annars traust á stjórnmálum og þar vatt Bjarkey sér að fjölmiðlum. Sagði hún fjölmiðla eiga sinn þátt í að rýra traust almennings á stjórnmálum og að sér þætti það miður. Sagði hún orðrétt „við þekkjum það í störfum þingsins, þá eru kamerurnar komnar, þá skiptir máli að einhver sé með söluvænlega setningu til að komast í fjölmiðlana“. Því næst sagði hún „fjölmiðlar eru ekki endilega að velta fyrir sér innihaldi þess sem sagt er, heldur; þetta selur, þetta er sniðugt, þetta klikkar á vefinn“. Þáttastjórnendur bentu réttilega á að þingmenn væru með orðið og fjölmiðlanna væri að endurvarpa því til almennings en ekki ritskoða það sem þingmenn segðu. Því miður var ekki hægt að halda áfram með þessa nauðsynlegu umræðu, því fátt er einmitt mikilvægara lýðræðinu en öflugir fjölmiðlar.
En hvað ætlum við að gera til að treysta rekstur fjölmiðla? Í stjórnarsáttmálanum er talað um að ríkisstjórnin muni bæta starfsumhverfi fjölmiðla, t.d. með endurskoðun á skattalegu umhverfi þeirra, en nú, þegar önnur fjárlög þessarar ríkisstjórnar hafa birst okkur má sjá að litlar efndir standa á bakvið holan hljóminn. Ríkisútvarpið, sem gegnir gríðarlegu menningarlegu hlutverki, er áfram eini fjölmiðillinn sem nýtur beinna ríkisstyrkja á fjárlögum.“
Og Helga Vala gerir sér grein fyrir hlutverki fjölmiðla:
„Í lýðræðisríkjum eru frjálsir fjölmiðlar lykillinn að upplýstri samfélagsumræðu og eflingu lýðræðis. Við verðum að sýna íslenskum frjálsum fjölmiðlum, sem allir vita að berjast í bökkum, að minnsta kosti smá viðleitni. Það að enn ein fjárlögin séu nú komin fram án nokkurs stuðnings veldur miklum vonbrigðum því við verðum að gera betur.“
Bjarni Ben og tóma skelin
„Ég var einfaldlega að velta því upp að þegar maður horfir yfir fjölmiðlaumhverfið á Íslandi í dag finnst manni víða skorta skýra ritstjórnarstefnu þegar birtist þar ein skoðun í dag og önnur á morgun, ýmsu dengt fram og þá sitja viðkomandi fjölmiðlar eftir sem tóm skel,“ sagði Bjarni Benediktsson í þingræðu í ágúst 2016. Og hann hélt áfram:
„Ég veit ekki hvers vegna það er sem þingmenn æsa sig svona mikið upp yfir því að maður opni á þessa umræðu. Er þetta eitthvert sérstakt viðkvæmt málefni fyrir þingmenn hér inni? Ég næ þessu bara ekki. Þetta er bara einföld hugrenning um stöðu fjölmiðlanna í landinu og skort á öflugum, sterkum fjölmiðlum með skýr skilaboð þar sem er einhver þráður frá degi til dags en þeir verði ekki bara gjallarhorn fyrir þá sem þar starfa. Það er hreinlega mín upplifun og ég ætla ekki að biðja þingmenn í þessum þingsal afsökunar á því.“