Greinar

Þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa grafið markvisst undan sóttvarnarreglum

By Aðsendar greinar

December 27, 2020

Ungir jafnaðarmenn eru ákveðnir.

„Ungir jafnaðarmenn hvetja Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Sigurð Inga Jóhannsson samgönguog sveitarstjórnarráðherra til að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn tafarlaust og leita eftir stuðningi ábyrgra stjórnarandstöðuflokka við minnihlutastjórn fram að næstu Alþingiskosningum sem verði flýtt og haldnar næsta vor. Sýnum samstöðu — gefum Sjálfstæðisflokknum frí og ábyrgum stjórnmálaflokkum vinnufrið til að ljúka baráttunni við veiruna og efnahagsáhrif hennar.“

„Formenn samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn hafa lýst yfir vonbrigðum en lofa áframhaldandi stuðningi við Bjarna Benediktsson. Engar fullnægjandi skýringar hafa komið fram á því hvað forsætisráðherra meinar þegar hún segir athæfi Bjarna skaða stjórnarsamstarfið en heitir um leið áframhaldandi samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Ljóst er að meðvirknin er allsráðandi í þeim flokkum sem mynda ríkisstjórn með flokki Bjarna Benediktssonar. Jafnframt er skýrt að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi virt sóttvarnarreglur eigin ríkisstjórnar að vettugi og með gjörðum sínum gefa þeir í skyn að reglur sem gilda eiga um almenning telji þeir ekki gilda um sig. Samstarfsflokkar hamra á mikilvægi samstöðu þegar gjörðir ráðherra þeirra senda allt önnur skilaboð.

Á undanförnum mánuðum hafa þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins grafið markvisst undan sóttvarnarreglum og trúverðugleika þeirra, annars vegar með því að virða sjálfir reglurnar að vettugi og hins vegar með órökstuddum og illa fram settum áróðri gegn sóttvarnarráðstöfunum. Brot Bjarna Benediktssonar á sóttvarnalögum í aðdraganda jóla er enn ein staðfesting þess að Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi til að koma nálægt landstjórninni á tímum mannskæðs heimsfaraldurs.“