Þingmenn kusu aukið ráðherraræði
Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur, er í fínu viðtali við Moggann í dag. Þar bendir hann á að þingheimur hafi valið aukið ráðherraræði. Þórarinn segir meðal annars við Moggann.
„Fjárlagagerðin hefur breyst. Fjárlagaliðirnir eru orðnir stærri og það er verr skilgreint en áður hvað féð innan þeirra á að fara í nákvæmlega. Ráðherra hefur því meira vald til að stýra hvert fjármagnið fer og færa milli verkefna og liða. Fjárlög munu því ekki setja neinn ramma um starfsemina í heilbrigðiskerfinu. Alþingi hefur í raun skilað auðu í stefnumótun heilbrigðiskerfisins, sérstaklega í þeim hluta sem ekki er ríkisrekinn. Þingið hefur í staðinn falið heilbrigðisráðuneytinu öll völd. Ég er ekki viss um að það verði breið sátt um það í samfélaginu hvort sem um er að ræða núverandi ráðherra og hans stefnu eða næsta ráðherra sem kemur og snýr stefnunni ef til vill í þveröfuga átt.“