Þingmenn í atvinnubótavinnu á ofurlaunum
Björn Leví skrifar í Mogga dagsins:
„Fjölmörg þeirra mála sem lögð eru fram á Alþingi fá enga afgreiðslu þar, en eru svo lögð fram á næsta þingi óbreytt í stað þess að afgreiðslu þeirra sé lokið. Fjöldi þingmanna leggur fram mál sem komast ekki í umræðu og hvað þá í gegnum nefnd. Á því þingi sem nú er að líða undir lok bíða 133 mál þess að komast í 1. umræðu og 103 mál eru í nefnd. Á síðasta heila þingi, á þarsíðasta kjörtímabili, biðu 159 mál eftir 1. umræðu og 74 dóu í nefnd. Mörg af þeim málum hafa verið lögð fram oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.“
Þessar staðreyndir eru hreint ótrúlegar. Nokkuð stór hluti starfa flestra þingmanna virðist til einskis unninn. Og ekki bara núna, svo hefur verið í langan tíma. Galið.
En hvers vegna er þetta svona, Björn Leví?
„Eftir stendur að sumir vilja halda núverandi fyrirkomulagi. Það er ákveðin leikjafræði á bak við það. Það er auðveldara að svæfa mál, það er auðveldara að taka mál í gíslingu og Alþingi afkastar minna. Einnig vill meirihlutinn oft ekki segja nei við mörgum málum, og þar liggur í raun hundurinn grafinn. Meirihlutaræðið, eins og það er stundað hérna á Íslandi, kemur í veg fyrir afgreiðslu mála sem er meirihluti fyrir á þingi, en af því að einn flokkur í ríkisstjórnarhluta segir nei, þá fer málið ekki lengra. Það er skiljanlegt ef málinu fylgir mikill kostnaður en að öllu öðru leyti er það ekki lýðræðislegt. Því þarf að breyta.“
Ljóst er að þingheimur bera enga virðingu fyrir eigin starfi. Björn Leví dregur tjöldin frá:
„Á fyrstu dögum nýs þings eru engin mál tilbúin til umræðu frá nefndum. Það er oft fundarfall hjá nefndum vegna þess að það er ekki búið að vísa neinum málum til þeirra, og eina starf nefndanna á fyrstu dögum þingsins er bara að vísa þeim málum sem þær þó fá til umsagna. Það er yfirleitt fyllt upp í þá daga með því að fá kynningu á þingmálaskrá ráðherra eða að fá kynningu ráðuneyta á stjórnarmálum, áður en umsagnir eru komnar.“
Þetta er svo galið. Samt svo satt.