- Advertisement -

„Þingmenn hafa rænt völdum“

„Það er því nokkuð hjákátlegt að þeir þingmenn sem hafa neitað að fara að vilja þjóðarinnar samkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 skuli nú sitja á Alþingi að fagna sambandslögunum sem álíka margir (eða álíka fáir) kjósendur samþykktu á sínum tíma.“ „Það er því í raun vel við hæfi að helsti talsmaður andmannúðar og mannfyrirlitningar á Norðurlöndum ávarpi nú valdaræningjanna sem sitja á Alþingi. Þar hæfir kjaftur skel.“

Gunnar Smári Egilsson.

Þingið heldur nú fund til að minnast þess að hundrað ár eru liðin síðan þingnefndir Alþingis og Ríkisþingsins danska komu sér saman um frumvarp til sambandslaga um að Ísland yrði frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Þetta frumvarp var svo lagt fram og samþykkt á Alþingi í september, og örugglega mun þingheimur minnast þess í haust. Það var svo 19. október að haldin var þjóðaratkvæðagreiðsla, þar sem meirihluti kjósenda samþykkti sambandslögin. Það verður gaman að fylgjast með hvernig Alþingi ætlar að halda upp á það, en meirihluti þingmanna hefur sniðgengið þjóðaratkvæðagreiðsluna um nýja stjórnarskrá frá 2012. Kannski ættum við, fólkið í landinu, að taka okkur saman og halda hátíð þennan októberdag; benda á að fullveldið liggur ávallt hjá þjóðinni og krefjast þess að Alþingi og ríkisstjórn beygi sig undir vilja hennar.

1918 voru 31.143 manns á kjörskrá. En þá bjuggu rúm 91 þúsund manns í landinu. Sama daginn og þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram kom spánska veikin til landsins. Áfallið sem reið yfir fjölskyldur og samfélagið allt vegna veikinnar var gríðarlegt; börn, ungmenni og ungt fólk veiktist heiftarlega og dó innan örfárra daga. Það var því skuggi yfir Reykjavík þegar fámennur hópur safnaðist saman fyrir framan stjórnarráðið 1. desember að fagna því að sambandslögin hefðu tekið gildi. Þá hafði spánska veikin ekki enn náð hápunkti. Það var ekkert sem benti til að drepsóttinni ætlaði að linna. Vel mátti vera að hún myndi draga öll börn og allt ungt fólk til dauða.

En ég ætla ekki að segja ykkur frá spönsku veikinni heldur þessari þjóðaratkvæðagreiðslu 19. október. Konur höfðu fengið kosningarétt 1915 ásamt vinnufólki og öðru fólki sem áður var talið tilheyra annarri deild samfélagsins, eða þriðju. Kosningaréttur hafði fyrst verið bundinn við karla sem áttu bústofn eða fasteignir og síðar við karla sem ekki voru öðrum háðir; vinnumenn, verkamenn og karlar á framfæri hreppsins fengu ekki að kjósa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við getum séð hversu kosningaréttur var takmarkaður með því að skoða þjóðaratkvæðagreiðsluna um áfengisbannið 1908. Þá voru 11.726 á kjörskrá. Miðað við kosningarétt í dag hefðu 49.465 átt að vera á kjörskrá. 1908 fengu því aðeins tæplega 24 prósent þeirra að kjósa sem hefðu haft kosningarétt ef kosið hefði verið eftir núgildandi lögum.

Við getum stillt þessu upp með því að segja að 37.739 hafi ekki haft kosningarétt miðað við kosningalög dagsins í dag. Byrjum að taka fólk á aldrinum 18 til 25 ára frá, en kosningaréttur var miðaður við 25 ár allt fram til 1934, þegar hann var lækkaður í 21 ár. Síðar var hann lækkaður í 20 ár 1968 og í 18 ár 1984. Við erum því að setja met í ár, erum á lengsta tímabili nútímasögu sem kosningaréttur hefur ekki verið rýmkaður. Það eru komin 34 ár síðan að kosningaaldur var lækkaður, jafn langt og leið frá 1934 til 1968. En hvað um það; miðað við kosningarétt okkar daga voru 9.690 svipt kosningarétti vegna aldurs 1908. Og konur fengu ekki að kjósa, 21.810 konur, 25 ára og eldri, voru sviptar kosningarétti vegna kynferðis. Það merkir að 6.239 karlar hafi verið sviptir kosningarétti vegna fátæktar, eignaleysis eða fyrir að vera í vinnu hjá öðrum körlum, undir þá settir. Af þeim körlum sem höfðu náð 25 ára aldri máttu 65 prósent kjósa. 35 prósent voru án kosningaréttar vegna þess að eir tilheyrðu lægstu stétt samfélagsins.

Þannig var staðan áður en konur fengu kosningarétt 1915 ásamt eignalausum körlum, að þeim undanskyldum sem höfðu þáð sveitarstyrk. Fátækt svipti fólk áfram kosningarétti. En konur og eignalausir karlar (sem ekki höfðu þurft á sveitarstyrk að halda) fengu ekki fullan kosningarétt strax heldur í þrepum. Fyrst gátu allir sem voru 40 ára og eldri kosið og svo átti að lækka kosningaaldur þessara hópa um eitt ár á ári þangað til 25 ára markinu væri náð.

Þegar þjóðaratkvæðagreiðslan 19. október 1918 var haldin voru því allir stöndugir karlar 25 ára og eldri með kosningarétt og einnig allar konur og eignarlausir menn 37 ára og eldri. En ekkert af fátækasta fólkinu.

Auðveldasta leiðin til að átta sig á hversu víðtækur kosningarétturinn var 1918 er að bera kjörskránna saman við hvernig hún hefði verið ef núgildandi kosningalög hefðu gilt. Á kjörskrá voru 31.143 en hefðu átt að vera 55.903 samkvæmt núgildandi kosningarétti. 1918 höfðu því 55,7 prósent þeirra kosningarétt miðað við reglurnar í dag.

Sem fyrr segir höfðu 23,7 prósent kosningarétt 1908, af þeim sem hefðu haft slíkan rétt miðað við lögin í dag. Með rýmkun kosningaréttar 1915 fengu því 32 prósent landsmanna kosningaréttinn umfram það sem áður var. En rúm 44 prósent sátu enn eftir án kosningaréttar, miðað við lögin í dag, þegar kom að því að kjósa um sambandslögin.

Og þá er ég loks kominn að því sem ég vildi segja ykkur frá. Af þessum 31.143 sem máttu kjósa um sambandslögin mættu bara 13.653 á kjörstað. Þetta er aðeins 43,8 prósent kosningaþátttaka. Sem er lítið. Kosningaþátttaka var 74,4 prósent þegar kosið var um áfengisbannið 1908. Og þetta er lélegasta kosningaþátttaka sem verið hefur í nokkurri þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi, nokkru lakari en hún var í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá 2012, en þá var þátttakan 48,4 prósent.

Af þeim sem mættu á kjörstað 1918 greiddu 92,6 prósent sambandslögunum atkvæði sitt. Ef við notum aðferðir Sjálfstæðisflokksins, en þingmenn hans hafa oft tekið að sér að vera umboðsmenn ógreiddra atkvæða, gætum við sagt að aðeins 40,6 prósent fólks á kjörskrá hefðu greitt sambandslögunum samþykki sitt. Þetta er viðlíka hlutfall og greiddi því atkvæði 2012 að í nýrri stjórnarskrá, sem fólk taldi sig þá vera að kjósa um, yrðu náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign. Af þeim 48,4 prósent sem mættu á kjörstað sögðust 82,9 prósent vilja þetta ákvæði í stjórnarskrá eða 40,1% þeirra sem voru á kjörskrá.

Það er því nokkuð hjákátlegt að þeir þingmenn sem hafa neitað að fara að vilja þjóðarinnar samkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 skuli nú sitja á Alþingi að fagna sambandslögunum sem álíka margir (eða álíka fáir) kjósendur samþykktu á sínum tíma. Það er svo sem ekki hægt að kvarta yfir að þingmenn fagni sambandslögunum. Það er hins vegar þeim til ævarandi skammar að hafa ekki farið að vilja þjóðarinnar í sambærilegri atkvæðagreiðslu 2012. Með því hafa þessir þingmenn í raun aflagt fullveldið, sem þeir þykjast í dag vera að fagna, því fullveldið liggur ætíð hjá þjóðinni. Ekki hjá þingmönnum. Þingmenn hafa rænt völdum með því að fara ekki að þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012, hafa tekið fullveldið af þjóðinni og eignað það þröngri stjórnmálaelítu.

Við erum því komin í hring. Eftir baráttu almennings á síðustu öld til að fá kosningarétt, sækja sér þann rétt sem valdafólk hafði svipt almenning; erum við komin á stað þar sem valdastéttin leyfir almenningi að kjósa en virðir niðurstöður kosninga að vettugi. Þetta á ekki aðeins við um þjóðaratkvæðagreiðslur heldur almennar kosningar líka. Þar eru ýmis mál lögð fram og rædd í kosningabaráttu sem þingmenn síðan sinna engu milli kosninga. Það er því í raun vel við hæfi að helsti talsmaður andmannúðar og mannfyrirlitningar á Norðurlöndum ávarpi nú valdaræningjanna sem sitja á Alþingi. Þar hæfir kjaftur skel.

Gunnar Smári Egilsson.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: