Þingmenn hafa fengið tvöfalt á við eldri borgara
Samfélag / „Talandi um meðaltöl og útreikninga þá hefur þingfararkaup alþingismanna hækkað um 125% á ákveðnu árabili en ellilífeyrir aðeins um helming þeirrar tölu,“ segir í Moggagrein Kára Jónassonar, fyrrverandi fréttastjóra fréttastofu útvarpsins.
„Það er því ekki að ósekju sem Grái herinn hefur sett á stofn málsóknarsjóð til að standa straum af málaferlum til að fá úr því skorið hvort skerðing almannatrygginga standist stjórnarskrá og mannréttindasáttmála. Það er vissulega neyðarúrræði að fara þessa leið, og hún verður bæði löng og erfið. Því er mikilvægt að eldri borgarar standi þétt saman í þessu máli,“ skrifar Kári.
„Það væri að æra óstöðugan að telja upp öll þau hagsmunamál sem samtök eldri borgara þurfa að berjast fyrir, svo sem vegna skerðingar bóta þegar þeir stunda launaða vinnu. Ekki er úr vegi að minnast á atvinnu- og tekjumissi margra vegna Covid-faraldursins. Þá rann upp fyrir mörgum að þeir sem náð hafa 70 ára aldri og eru enn í vinnu eiga ekki kost á atvinnuleysisbótum og hefur svo verið í fjölda ára. Þar er því verk að vinna. Hins vegar gátu þeir notið hlutabótaleiðarinnar, svo því sé haldið til haga.“