Þingmenn fórna skoðunum sínum í von um ráðherraembætti úr lófa Bjarna
Tilvitnanirnar, sem eru innan gæsalappa í greininni, eru sóttar í grein Styrmis Gunnarssonar í Mogganun í dag. Spurningar og aðrar athugasemdir eru Miðjunnar og er allt sett inn eftir á.
Þriðji orkupakkinn mun fara nær því að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn en nokkuð mál annað. Sýnilegt er að margir þingmanna flokksins hafa kokgleypt fyrri skoðanir sínar og gengið til liðs við ráðherrasveitina. Skoðanir sem þeir opinberuðu ítrekað. Hvað veldur þessum sinnaskiptum?
„Ein ástæðan fyrir því er sú að hollusta við foringja hvers tíma hefur alltaf verið mikil í flokknum og mikilvæg í að halda svo breiðum flokki með ólík sjónarmið innanborðs saman.“
Er það allt? Liggur fleira að baki?
„Önnur ástæða gæti verið sú, að þeir hinir sömu hafi augastað á ráðherraembætti, sem gæti verið laust og vilji ekki eyðileggja möguleika sína á því að koma þar til greina.“
En gerist svona?
„Allt er þetta skiljanlegt. Slíkur sveigjanleiki er nauðsynlegur þáttur í stjórnmálastarfi og er verjanlegur, þegar dægurmál eru á ferð. En hann á ekki við, þegar um grundvallarmál sjálfstæðrar þjóðar er að ræða.“
Svo skrifar Styrmir: „Ætla hefði mátt að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu nýtt aðstöðu sína til að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka með formlegum hætti. Þeir heyktust á því, þegar þeir höfðu aðstöðu til.
Og nú er enn vegið í sama knérunn í fullveldismálum með því að opna dyrnar fyrir Evrópusambandið til þess að ná tangarhaldi á einni helztu auðlind íslenzku þjóðarinnar.“
Ekki fer á milli mála að meira en gjá er á milli almennra flokksmanna og þingmanna.
„Virðingarleysið gagnvart eigin flokksmönnum og kjósendum er umhugsunarefni. Samþykktir landsfundar Sjálfstæðisflokksins eru hafðar að vettugi með útúrsnúningum og „túlkunum“. Ábendingar um að æskilegt væri að ræða Orkupakka 3 frá báðum sjónarhornum á vettvangi Sjálfstæðisflokks eru ekki taldar þess virði að svara þeim.“
Og afleiðingarnar, hverjar eru þær innan Sjálfstæðisflokksins?
„Hinn tilfinningalegi þáttur þessa máls er hættulegur. Þegar pólitískir samherjar deila sín í milli um grundvallarmál af þessu tagi verða tilfinningar sterkar á báða bóga. Reynslan sýnir að harkan og jafnvel illskan þeirra í milli verður meiri og erfiðari en þegar deilt er við pólitíska andstæðinga. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að hafa þetta í huga, þegar þeir tala til flokkssystkina, sem eru annarrar skoðunar en þeir um þessi mál. Það kemur dagur eftir þennan dag.“