- Advertisement -

Þingmannaspá eða samkvæmisleikur

Stjórnmál. Gunnars Smári Egilsson hefur tekið þetta saman:

Hér er þingheimur miðað við nýjustu skoðanakönnunina, MMR, ef við gerum ráð fyrir að fylgi flokka skiptist með sama hætti milli kjördæma og í fyrra (og að fylgi Miðflokksins dreifist eins og Framsóknar). Þetta er auðvitað ekki spá, fremur samkvæmisleikur. Bæði er enn átta dagar til kosninga og eins er uppbótakerfið þannig að það má varla hósta á fylgið án þess að níu þingmenn fara í hringekju sem nánast tilviljun er hvernig endar. En svo er myndin að þessum forsendum gefnum:

Sjálfstæðisflokkur

Samkvæmt könnuninni fengi Sjálfstæðisflokkurinn 14 þingmenn og miðað við að það fylgi skiptist milli kjördæma eins og í fyrra gætu þetta orðið þingmenn flokksins. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Bjarni Benediktsson, Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon, Sigríður Á. Andersen og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Allt eru þetta sitjandi þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn missir hins vegar sjö þingmenn: Birgir Ármannsson, Hildur Sverrisdóttir, Teitur Björn Einarsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Vilhjálmur Bjarnason.

Vinstri græn

Með sömu forsendum fengi VG tólf þingmenn. Þessi ná endurkjöri: Andrés Ingi Jónsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Steingrímur Jóhann Sigfússon, Steinunn Þóra Árnadóttir og Svandís Svavarsdóttir. VG fengi tvo nýja þingmenn, Bjarni Jónsson og Ólafur Þór Gunnarsson, kæmu inn.

Samfylking

Samfylkingin fengi tíu þingmenn kjörna og þar af sjö nýliða: Ágúst Ólafur Ágústsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Njörður Sigurðsson. Þriggja manna þingflokkurinn næði allur endurkjöri: Guðjón S. Brjánsson, Logi Már Einarsson og Oddný G. Harðardóttir.

Píratar

Píratar fá sjö þingmenn, þar af ná sex endurkjöri: Björn Leví Gunnarsson, Eva Pandora Baldursdóttir, Gunnar Hrafn Jónsson, Halldóra Mogensen, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Helgi Hrafn Gunnarsson kemur aftur inn á þing eftir stutt hlé. Ásta Guðrún Helgadóttir og Birgitta Jónsdóttir gáfu ekki kost á sér en Einar Brynjólfsson missir þingsæti sitt.

Miðflokkur

Miðflokkurinn fær líka sjö þingmenn. Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ná endurkjöri en ný á þingi verða: Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Elvar Eyvindsson og Þorsteinn B Sæmundsson kemur aftur inn eftir stutt hlé.

Framsókn

Framsókn fær fimm þingmenn; Sigurður Ingi Jóhannsson og Þórunn Egilsdóttir ná endurkjöri, Ásmundur Einar Daðason, Líneik Anna Sævarsdóttir og Willum Þór Þórsson koma aftur inn eftir hlé. Elsa Lára Arnardóttir og Eygló Harðardóttir gáfu ekki kost á sér og Lilja Alfreðsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir falla af þingi.

Viðreisn

Viðreisn er með fjóra þingmenn: Hanna Katrín Friðriksson, Jóna Sólveig Elínardóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson. Benedikt Jóhannesson, Jón Steindór Valdimarsson og Pawel Bartoszek missa hins vegar þingsæti sín.

Flokkur fólksins

Flokkur fólksins kemst á þing með þrjá nýja þingmenn: Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland og Ólafur Ísleifsson.

Björt framtíð

Þingflokkur Bjartrar framtíðar þurrkast út: Björt Ólafsdóttir, Nichole Leigh Mosty og Óttarr Proppé falla af þingi en Theodóra S. Þorsteinsdóttir gaf ekki kost á sér.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: