„Fólkið sem duglegast er að kenna sig við umburðarlyndi og skreyta sig með frjálslyndi virðist hafa litla þolinmæði fyrir andstæðum skoðunum, allra síst miðaldra karla,“ þannig hefst grein eftir Óla Björn Kárason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í Mogganum í dag.
„Ég fæ ekki betur séð en að þeir sem helst af öllu vilja vængstýfa miðaldra karlmenn, ekki síst þá sem hafa unnið sér það til óhelgi að vera hægrisinnaðir, séu í andlegum tengslum við þá sem leggja hart að sér að grafa undan tiltrú á einstaklinginn og frjálst framtak,“ skrifar hann.
Tilefni Óla er umræðan um varnir hans og annarra gegn því að Alþingi samþykkti lægri kosningaaldur í komandi byggðakosningum.
Óla svíður greinilega undan umræðunni: „Límmiða-pólitíkin hefur tekið yfir rökræðuna. Pólitískir andstæðingar eru „brennimerktir“.“
Hann segir þá sem harðast lögu sig fram, ekki hafa verið á móti lægri kosningaaldri.
„Fæstir þeirra þingmanna sem lögðust gegn samþykkt frumvarpsins eru andvígir því að lækka kosningaaldurinn.“
Ekki er vitað við hvern þingmaðurinn á þegar hann skrifar þetta: „Prófessor, sem leggur að því er virðist meiri áherslu á merkimiða en fræðimennsku, blandaði sér í umræðuna um lækkun kosningaaldurs. Um smekklegheit manns sem hefur látið sig dreyma í áratugi um að njóta virðingar sem fræðimaður dæma aðrir en sá er hér heldur um penna: „Sjálfstæðismenn sem tala um lýðræði orka nú orðið á mig eins og nasistar að auglýsa gasgrill.““
Og svo endar Óli Björn á þessu: „Með andstæðinga af þessu tagi er það nokkuð ánægjulegt að vera miðaldra hægrisinnaður karl.“