Þingmaður segir Bjarna ljúga viljandi
Björn Leví Gunnarsson Pírati segir forsætisráðherra ljúga að yfirlögðu ráði
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata var ákveðinn í ræðustól Alþingis. Hann sagði þar að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefði logið í viðtali við RÚV:
Hann vitnaði til orða Bjarna: „Skýrslan er í raun og veru ekki komin til okkar í endanlegri mynd fyrr en eftir að þing er farið heim.“ „Þetta er einföld lygi,“ sagði Björn Leví. Áfram vitnaði Björn Leví í orð forsætisráðherra:
„Ég mun á næstu dögum sömuleiðis skila skýrslu um þau mál sem ég boðaði í vor varðandi umfang þeirra mála.“ „Þarna veit ráðherra að skýrslan er tilbúin,“ sagði Björn Leví. „Ráðherra segir einnig í svörum í sérstakri umræðu hér í síðustu viku: „Fjölmiðlum var svarað að skýrslan væri að verða tilbúin.“
Björn Levís sagði að samkvæmt sínum upplýsingum hafi fjölmiðlar einungis fengið að vita að skýrslan væri tilbúin eftir kosningar. „Það er þá spurning hvort logið hafi verið að fjölmiðlum fyrir kosningar líka og ef þeim hefur verið svarað að skýrslan væri að verða tilbúin fyrir kosningar þá vissi forsætisráðherra í raun og veru að skýrslan væri tilbúin.“
Björn Leví benti á að í sérstökum umræðum í síðustu viku sagði forsætisráðherra:
„Ég hef aldrei í tengslum við þessa skýrslu lagt mat á hvort einhver efnisatriði umfram önnur vörðuðu almannahag.“
„Það skiptir gríðarlega miklu máli því að forsætisráðherra hefur frumkvæðisskyldu um birtingu upplýsinga við almenning, ekki við þingið heldur við almenning, um mál sem varða almannahag. Það er skylda hans að ákveða hvort efni sem hann hefur undir höndum varðar almannahag eða ekki. Í þessu tilviki er ráðherra hins vegar tiltölulega vanhæfur vegna tengsla sinna við aflandsfélög, og allt þetta, öll þessi tímalína og öll þessi ummæli, benda til þess að ráðherra hafi logið að yfirlögðu ráði,“ sagði þingmaðurinn
Virðulegi forseti. Ég ætlaði reyndar að hrósa í þessari ræðu, eins og sá sem hér var á undan mér gerði, en ég get ekki orða bundist yfir ræðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar rétt áðan þar sem hann sakar fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra um lygar.
Lítilmannlegur áburður
Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, var ekki skemmt undir orðum Björns Leví. „Hann segir að forsætisráðherra ljúgi úr þessum stól að yfirlögðu ráði. Ég hélt, virðulegi forseti, að gerðar yrðu athugasemdir við slíkt orðalag í þinginu. Ég verð að segja eins og er að fyrir fram geri ég yfirleitt ekki ráð fyrir því að hingað í þennan stól komi menn eða konur til þess að ljúga. Það er afar lítilmannlegt að bera slíkt á menn, ráðamenn þessarar þjóðar og þingmenn.“ Og síðar sagði Ásmundur: „Mér finnst þetta svo lítilmannlegt. Þetta er lítilmótleg umræða. Og hún er í boði Pírata.“
Lygin var viljandi
Björn Leví kvaddi sér hljóðs og sagðist þurfa að leiðrétta Ásmund Friðriksson. „ Ég geri ráð fyrir því að fólk segi satt í þessum ræðustól og ef ég teldi forsætisráðherra hafa logið í ræðustól væri ég hér ekki að flytja ræðu undir liðnum um fundarstjórn forseta heldur vantrauststillögu.“ Og áfram talaði Björn Leví Gunnarsson: „Nei, ég segi að forsætisráðherra hafi logið að yfirlögðu ráði í viðtali við RUV og logið í afsökun sinni þegar að sú lygi var upplýst.“ Og að endingu: „Ráðherra þarf að svara hvort hann hafi brotið siðareglur og hvort efni umræddrar skýrslu varði almannahag. Við þurfum að spyrja okkur hverjar afleiðingarnar af þeirri lygi eiga að vera.“