Stjórnmál

Þingmaður kvartar undan ásökunum um nasisma

By Miðjan

February 17, 2021

„Það varð hér fyrir skömmu nokkur umræða um orðræðu- og umræðuhefð í stjórnmálum. Þingmenn ýmist stigu hér á stokk bísperrtir og lofuðu því að haga sér vel eða sögðust aldrei hafa notað orðræðu sem væri ósæmileg,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki á Alþingi í dag.

„En núna nokkrum vikum seinna er siðbótin frá. Hér í gærkvöldi var orðræða í gangi sem forseti, ásamt forsætisnefnd, hlýtur að taka til athugunar þar sem teiknuð var upp mynd af heilum þingflokki með lítið burstaskegg og allir greiddir til vinstri. Það er ekki líðandi, herra forseti. Og það er ekki líðandi að heill þingflokkur sé sakaður um tilburði sem nálgist gyðingahatur, og það komandi frá stuðningsmanni borgarstjórnar sem setti viðskiptabann á Ísrael. Hversu mikil getur hræsnin orðið, herra forseti?“

Þorsteinn var ekki hættur: „Og það er þannig, herra forseti, að hér um ganga reikar stefnulaus lýður með lúið bókhald í vasanum og ætlar að kenna okkur hinum hvernig við eigum að haga okkur. Í gærkvöldi gat popúlisti úr einstefnuflokknum ekki staðist mátið að hefja upp sama söng og hinn siðprúði félagsmálaráðherra sem er nýber að því að hafa farið á svig við lög um ráðherraábyrgð og þingsköp. Hann blandaði sér í hópinn til að mála þennan hræðilega þingflokk þessum gyðingahaturs- og hommafælnistimpli sem er algerlega óþolandi.

Herra forseti. Þessa orðræðu þarf að stöðva núna. Forsætisnefnd og forseti, í öfugri röð, þurfa að taka þetta mál á dagskrá og sjá til þess að slík orðræða sé ekki viðhöfð hér í þingsölum Alþingis.“