Hluti eignanna, alls 1.300 íbúðir, rataði nýlega í norska eigu þegar leigufélagið Heimavellir var selt eignarhaldsfélaginu Fredensborg-ICE.
Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Miðflokksins, spurði aftur og aftur þar til hann fékk svar, um sölu þeirra íbúða sem Íbúðalánasjóður tók af fólki á árunum eftir hrun. Þorsteinn skrifar grein um þetta í Moggann í dag og þar kallar hann eftir rannsóknarblaðamönnum til að fylgja sinni vinnu eftir.
„Nýlega skilaði félags- og barnamálaráðherra svari við fyrirspurn undirritaðs um sölu á fullnustueignum Íbúðalánasjóðs árin 2008-2019. Í svarinu kom fram að rúmlega 4.200 eignir voru seldar fyrir 71,3 milljarða króna á tímabilinu. Svarinu fylgdi listi yfir kaupendur ásamt söluverði hverrar eignar eftir ítrekaða tafaleiki ráðherrans. Eignirnar 4.200 höfðu áður verið teknar af viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs oft á hrakvirði. Má leiða líkum að því að minnst tíu þúsund manns hafi misst heimili sín í hendur Íbúðalánasjóðs á tímabilinu. Íbúðirnar hafa síðan gengið kaupum og sölum og kanna þarf þá sögu sérstaklega. Hluti eignanna, alls 1.300 íbúðir, rataði nýlega í norska eigu þegar leigufélagið Heimavellir var selt eignarhaldsfélaginu Fredensborg-ICE. Allt þykir undirrituðum þetta fréttnæmt og áhugavert,“ skrifar Þorsteinn.
„Allnokkrir þeirra sem misstu heimili sín á þessum tíma hafa sett sig í samband við undirritaðan og sagt sögur sínar af viðskiptum við Íbúðalánasjóð. Þær frásagnir eru margar þyngri en tárum taki og þarf að segja opinberlega. Hvet ég hér með fleiri til að stíga fram og hafa samband,“ bætir hann við.
„Nú er undirritaður ekki blaðamaður og hefur því hugsanlega takmarkaðan skilning á eðli þess starfs en er fyrirmunað að skilja almennt áhugaleysi fjölmiðla á þessu máli. Á því eru heiðarlegar undantekningar, einkum dagskrárgerðarmenn Bylgjunnar og síðan Fréttablaðið,“ bætir Þorsteinn við.
„RÚV okkar allra hefur engan áhuga sýnt þessu máli og ekki heldur helstu hneykslunarmiðlar. Því er spurt: Hvers vegna þetta áhugaleysi? Hafa miðlarnir ekki áhuga á afleiðingum þess að meira en tíu þúsund manns missi heimili sín? Finnst miðlum ekki áhugavert að rannsaka hvers vegna eitt fasteignafélag keypti nokkur hundruð íbúðir í einum pakka? Finnst rannsóknarblaðamönnum ekki áhugavert að fylgja sölusögu íbúðanna eftir? Hverjir eru kaupendur númer tvö, þrjú og áfram? Getur hugsanlega verið að miðlarnir hafi ekki áhuga vegna þess hvar í flokki sá er sem vakið hefur athygli á málinu? Hvað finnst rannsóknarblaðamönnum fréttnæmt?“
Þorsteinn kýs að nefna einhverja fjölmiðla hneykslunarmiðla, án þess að segja hvaða fjölmiðla hann á við. Látum það liggja á milli hluta. Þorsteinn heldur áfram:
„Það er risavaxið mál þegar rúmlega fjögur þúsund íbúðir eru seldar ofan af fólki. Það er risavaxið mál þegar tíu þúsund manns hrekjast af heimilum sínum og standa eftir með tvær hendur tómar. Það er risavaxið mál að komast að því hvernig þessum hópi hefur reitt af. Það er risavaxið mál að komast að því hverjir mökuðu krókinn á því að kaupa ríkiseignir á slikk og selja síðan hver öðrum með söluhagnaði hvert sinn. Það er risavaxið mál að fjölmiðlar skuli upp til hópa sýna slíkum atburðum áhuga- og skeytingarleysi, ekki síst í ljósi þess að þeir hafa sótt á ríkissjóð að sögn til þess að vera í betri færum til að sinna almannahlutverki sínu.
Því er spurt: Hvar er Kveikur? Hvar eru aðrir rannsóknarblaðamenn?“