- Advertisement -

Þingmaður kallar eftir rannsóknarblaðamönnum

Hluti eign­anna, alls 1.300 íbúðir, rataði ný­lega í norska eigu þegar leigu­fé­lagið Heima­vell­ir var selt eign­ar­halds­fé­lag­inu Fredensborg-ICE.

Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Miðflokksins, spurði aftur og aftur þar til hann fékk svar, um sölu þeirra íbúða sem Íbúðalánasjóður tók af fólki á árunum eftir hrun. Þorsteinn skrifar grein um þetta í Moggann í dag og þar kallar hann eftir rannsóknarblaðamönnum til að fylgja sinni vinnu eftir.

„Ný­lega skilaði fé­lags- og barna­málaráðherra svari við fyr­ir­spurn und­ir­ritaðs um sölu á fulln­ustu­eign­um Íbúðalána­sjóðs árin 2008-2019. Í svar­inu kom fram að rúm­lega 4.200 eign­ir voru seld­ar fyr­ir 71,3 millj­arða króna á tíma­bil­inu. Svar­inu fylgdi listi yfir kaup­end­ur ásamt sölu­verði hverr­ar eign­ar eft­ir ít­rekaða tafa­leiki ráðherr­ans. Eign­irn­ar 4.200 höfðu áður verið tekn­ar af viðskipta­vin­um Íbúðalána­sjóðs oft á hra­kv­irði. Má leiða lík­um að því að minnst tíu þúsund manns hafi misst heim­ili sín í hend­ur Íbúðalána­sjóðs á tíma­bil­inu. Íbúðirn­ar hafa síðan gengið kaup­um og söl­um og kanna þarf þá sögu sér­stak­lega. Hluti eign­anna, alls 1.300 íbúðir, rataði ný­lega í norska eigu þegar leigu­fé­lagið Heima­vell­ir var selt eign­ar­halds­fé­lag­inu Fredensborg-ICE. Allt þykir und­ir­rituðum þetta frétt­næmt og áhuga­vert,“ skrifar Þorsteinn.

„All­nokkr­ir þeirra sem misstu heim­ili sín á þess­um tíma hafa sett sig í sam­band við und­ir­ritaðan og sagt sög­ur sín­ar af viðskipt­um við Íbúðalána­sjóð. Þær frá­sagn­ir eru marg­ar þyngri en tár­um taki og þarf að segja op­in­ber­lega. Hvet ég hér með fleiri til að stíga fram og hafa sam­band,“ bætir hann við.

Þú gætir haft áhuga á þessum

RÚV okk­ar allra hef­ur eng­an áhuga.

„Nú er und­ir­ritaður ekki blaðamaður og hef­ur því hugs­an­lega tak­markaðan skiln­ing á eðli þess starfs en er fyr­ir­munað að skilja al­mennt áhuga­leysi fjöl­miðla á þessu máli. Á því eru heiðarleg­ar und­an­tekn­ing­ar, einkum dag­skrár­gerðar­menn Bylgj­unn­ar og síðan Frétta­blaðið,“ bætir Þorsteinn við.

„RÚV okk­ar allra hef­ur eng­an áhuga sýnt þessu máli og ekki held­ur helstu hneyksl­un­ar­miðlar. Því er spurt: Hvers vegna þetta áhuga­leysi? Hafa miðlarn­ir ekki áhuga á af­leiðing­um þess að meira en tíu þúsund manns missi heim­ili sín? Finnst miðlum ekki áhuga­vert að rann­saka hvers vegna eitt fast­eigna­fé­lag keypti nokk­ur hundruð íbúðir í ein­um pakka? Finnst rann­sókn­ar­blaðamönn­um ekki áhuga­vert að fylgja sölu­sögu íbúðanna eft­ir? Hverj­ir eru kaup­end­ur núm­er tvö, þrjú og áfram? Get­ur hugs­an­lega verið að miðlarn­ir hafi ekki áhuga vegna þess hvar í flokki sá er sem vakið hef­ur at­hygli á mál­inu? Hvað finnst rann­sókn­ar­blaðamönn­um frétt­næmt?“

Þorsteinn kýs að nefna einhverja fjölmiðla hneykslunarmiðla, án þess að segja hvaða fjölmiðla hann á við. Látum það liggja á milli hluta. Þorsteinn heldur áfram:

Hvar er Kveik­ur?

„Það er risa­vaxið mál þegar rúm­lega fjög­ur þúsund íbúðir eru seld­ar ofan af fólki. Það er risa­vaxið mál þegar tíu þúsund manns hrekj­ast af heim­il­um sín­um og standa eft­ir með tvær hend­ur tóm­ar. Það er risa­vaxið mál að kom­ast að því hvernig þess­um hópi hef­ur reitt af. Það er risa­vaxið mál að kom­ast að því hverj­ir mökuðu krók­inn á því að kaupa rík­is­eign­ir á slikk og selja síðan hver öðrum með sölu­hagnaði hvert sinn. Það er risa­vaxið mál að fjöl­miðlar skuli upp til hópa sýna slík­um at­b­urðum áhuga- og skeyt­ing­ar­leysi, ekki síst í ljósi þess að þeir hafa sótt á rík­is­sjóð að sögn til þess að vera í betri fær­um til að sinna al­manna­hlut­verki sínu.

Því er spurt: Hvar er Kveik­ur? Hvar eru aðrir rann­sókn­ar­blaðamenn?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: