Stjórnmál

Þingmaður hæðist að sérsveitinni

By Miðjan

May 08, 2024

„Sérsveit ríkislögreglustjóra“ — áður oft kölluð víkingasveitin — „er hreyfanlegt lögreglulið sem er sérþjálfað til þess að takast á við vopnuð lögreglustörf og öryggismál, þar með talin hryðjuverk og stórfelld ofbeldisbrot.“

Þetta sagði Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir á Alþingi.

„Hér áður fyrr voru fyrirsagnir vegna útkalla sérsveitarinnar á þá leið t.d. að sérsveitin hefði verið kölluð til vegna manns sem gekk um í Skeifunni vopnaður skammbyssu og virtist ógna fólki. Þá var vopnaður maður handtekinn sem gekk berserksgang vopnaður skotvopni. Þetta voru tilfellin áður og þau voru fá. Fréttum af aðgerðum sérsveitarinnar fer fjölgandi. Hvernig er þetta í dag? Sérsveit ríkislögreglustjóra fór húsavillt í Kópavogi og vakti mann, fullvopnuð. Í öðru tilfelli fór hún með offorsi að heimili fjölskyldu þar sem allt var með kyrrum kjörum vegna barns sem hafði sést að leik. Í fyrra hafði sérsveitin í tvígang afskipti af sama ungmenninu, fyrst í strætó og svo þar sem hann sat að snæðingi í bakaríi með móður sinni. Sérsveit var kölluð út til að handtaka mann í Tjarnabyggð, byssu miðað á manninn og 15 ára son hans en í ljós kom að þeir tengdust málinu alls ekki. Skotrifflum var beint að ungum manni sem vogaði sér að gera við bílinn sinn í Grindavík. Þá vakti handtaka tveggja manna í Mjóddinni óhug vegfarenda, þar á meðal 11 ára stúlkna sem voru á leiðinni á Barbie-kvikmyndina. Þeir voru grunaðir um að hafa flutt til landsins um 2 kíló af kókaíni og vera að sækja það. Og nú síðast fór sérsveitin að Vernd, þar sem fólk er að reyna að koma fótum undir sig aftur í lífinu, til þess að ræða við mann. Maður tilkynnti um það á Facebook að hann hefði skotið hundinn sinn, að sögn fyrir velferð hundsins, og hálfum mánuði síðar ræðst sérsveitin heim til hans og vekur upp óhug hjá leigjendum,“ sagði Arndís Anna.

„Í svari við fyrirspurn minni frá september síðastliðnum kom fram að vopnuð útköll sérsveitar hafi meira en tvöfaldast frá árinu 2017. Ekki reyndist hins vegar unnt að taka saman fjölda þeirra mála þar sem lögreglu berst tilkynning um vopnaða einstaklinga. Sjáum við mynstrið? Forseti. Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar? “

Þannig var ræða Arndísar Önnu á Alþingi.