Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir er í þingflokki Framsóknar. Hafdís Hrönn hlaut kosningu í síðustu þingkosningum. Hún er rúmlega þrítug. Hafdís Hrönn skrifar grein í Moggann í dag. Þar fjallar hún um muninn á launatekjum og fjármagnstekjum og hversu skattarnir eru ólíkir á launum og fjármagnstekjum. Hún skrifar. „…við eigum að búa til sanngjarnari leikreglur í skattkerfinu okkar.“
„Kjaragliðnunin er mest á milli fjármagnseigenda og launafólks en á undanförnum tíu árum hafa fjármagnstekjur aukist gífurlega eða um 120% að raunvirði. Atvinnutekjur í hagkerfinu jukust um 53%.
Ekki er greitt tryggingargjald né útsvar af útgreiddum arði og mikill munur er á milli skattlagningar á hagnað lögaðila og tekjuskatts. Það er því spurning hvort ekki sé löngu kominn tími til að taka þetta til endurskoðunar. Að mínu mati er þessari spurningu auðsvarað. Það þarf að girða fyrir tekjutilflutning milli launa og fjármagnstekna,„ skrifar Hafdís Hrönn.
„Er ekki kominn tími til að taka samtalið um það skatthlutfall sem fjármagnseigendur greiða af útgreiddum arði? Við þurfum að skapa sanngjarnara og skilvirkara skattkerfi og að fjármagnstekjuskattur verði settur í þrepaskiptingu,“ skrifar Hafdís Hrönn.
Sem kunnugt er ver Sjálfstæðisflokkurinn óbreytt kerfi. Nú er að bíða og sjá hvað verður. Óbreytt kerfi eða breytt? Spáin segir að engu verði breytt í tíma þessarar ríkisstjórnar.