Þingheimur sleikir sólina, þjóðin sleikir sárin
Kvíðinn tekur sér ekki sumarfrí og óvissan ekki heldur.
Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:
Sumarfrí þings og þjóðar.
Það er gott að geta tekið sér sumarfrí, sérstaklega áhyggjulaust sumarfrí eins og ráðamenn þjóðarinnar munu eflaust gera.
Kvíði og óvissa yfir því hvort greiðsluskjólin verði framlengd eða hvort vanskilaskráin taki á móti þér í haust.
En á meðan þingheimur sleikir sólina sleikir þjóðin sárin. Eða öllu heldur sá hluti þjóðarinnar sem niðursveiflan hefur leikið hvað verst.
Nú hefur þingi verið frestað frá 30. júní til 27. ágúst næstkomandi og komast væntanlega þingmenn og ráðherrar í kærkomið frí.
Það er með ólíkindum hvernig hægt er að skilja fólk eftir í viðlíka óvissu og fram undan er án þess að senda frá sér einhverjar yfirlýsingar um það sem koma skal.
Kvíðinn tekur sér ekki sumarfrí og óvissan ekki heldur.
Kvíði og óvissa yfir því hvort atvinnuleysisbætur verði skertar ef fólk skráir sig í nám, en ætla má að nú sé sá tími sem slík plön eru gerð.
Kvíði og óvissa yfir því hvort þér verði refsað fyrir að halda þér í lífsnauðsynlegri virkni eftir atvinnumissi.
Kvíði og óvissa yfir því hvort greiðsluskjólin verði framlengd eða hvort vanskilaskráin taki á móti þér í haust.
Kvíði og óvissa yfir því hvort að tekjutengdar atvinnuleysisbætur verða framlengdar, atvinnuleysisbætur hækkaðar eða valið muni standa á milli matarkaupa eða greiðslu reikninga.
Nú þegar eru fjöldi atvinnuleitenda að skoða möguleika til menntunar en sökum þess að framlög til símenntunarstöðva eins og Mími hafa verið skorin við nögl er ekki möguleiki á að taka við fleiri verkefnum.
Við í verkalýðshreyfingunni vitum vel að það er verið að vinna í mörgum þessum málum. Og við erum að reyna okkar besta í að ná þeim í gegn í samvinnu við stjórnvöld.
En það breytir því ekki að fólkið okkar, sem þessi staða hittir harðast, hefur ekki hugmynd um hvað er í gangi og hvers ber að vænta. Það gera sér allir grein fyrir því að stundum getur tekið tíma að vinna hlutina en það sem við þurfum síst á að halda núna er óþarfa óvissa og brengluð forgangsröðun.
Það eru því kaldar kveðjur út í sumarið að skella í lás, vegna sumarlokanna, án þess að gefa minnstu vísbendingar eða yfirlýsingar um hvers sé að vænta á komandi mánuðum.
Ég skora á stjórnvöld að senda frá sér yfirlýsingu um hvort og þá hvernig þessum verkefnum verður raðað niður á haustið svo fólk geti í það minnsta gert plön á meðan þingheimur sleikir sólina.