Alþingi Íslendinga glímir við þjóð sína. Þjóðin vill vita allt um kaup, kjör og allar greiðslur til þingmanna, hvers og eins. Þingið er ekki sömu skoðunar. Það kýs leyndina. Auðvitað verður eitthvað birt og gert sýnilegt. En ekki allt. Ekki allt.
Í Fréttablaðinu í dag eru upplýsingar um nýjustu tilraunina til þöggunnar, tilraunar til að ekki verði hægt að lesa um eða fræðast um kostnað þjóðarinnar af einstaka þingmönnum. Í blaðinu segir:
„Forsætisnefnd ákvað á fundi sínum í gær að upplýsingar um ferðakostnað þingmanna verði birtar á sérstökum vef. Þar verða þó einungis birtar upplýsingar um kostnað sem þingmenn hafa stofnað til frá 1. janúar 2018 en ekki lengra aftur í tímann. Þetta staðfestir Jón Þór Ólafsson, þingmaður og fulltrúi Pírata í forsætisnefnd.“
Glíma Alþingis við eigin þjóð mun einmitt taka þessa mynd á sig sem og margar aðrar birtingarmyndir. Öfgamenn, svo sem Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason, verða að sættast á éta það sem úti frýs. Þeirra eigin orð, frekar en innheimta þeirra gagnvart þinginu, verður þeim að falli. Þeir hafa sprengt af sér það mikilvægasta í eigin heimi, það er samtryggingu stjórnmálamanna. Sem venjulega heldur þvert á flokka.
Næstu daga og næstu vikur mun Alþingi Íslendinga finna margar leiðir til að víkja sér undan spurningum um raunverulegan kostnað þjóðarinnar til að halda úti hverjum og einum þingmanni svo ekki upplýstist um þá þingmenn sem kunna sér engin takmörk. Þeir munu njóta þess að þing þagnarinnar gætir þeirra.
Sigurjón M. Egilsson.