Þingmenn Sjálfstæðisflokksins fara gegn Benedikt fjármálaráðherra
Stjórnmál „Þær fyrirætlanir sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu varðandi tekjuöflun ríkissjóðs og breytingar á sköttum og gjöldum hér til hækkunar eru með þeim hætti að þær hljóta að taka breytingum í meðförum þingsins,“ sagði Óli Björn Kárason í viðtali við Morgunblaðið. Hann segir skatta vera hækkaða í frumvarpinu.
Óli Björn sagði engu skipta hvort rætt sé um fyrirhugaða hækkun á áfengisgjaldinu, hækkun á dísilgjaldinu eða aðrar hækkanir. „Það kæmi mér verulega á óvart ef það væri þingmeirihluti fyrir slíkum breytingum,“ sagði Óli Björn.
„Það blasir við að maður hefur áhyggjur af þeim skattahækkunum sem fjárlögin gera ráð fyrir. Þetta þarf að skoða betur og fara yfir. Það verður að segjast eins og er að það er ekki mikil hrifning í þingflokki Sjálfstæðisflokksins með fyrirhugaðar skattahækkanir,“ sagði Brynjar Níelsson við Morgunblaðið.
Við þurfum bara að meta þetta þegar upp verður staðið, hvort maður getur endalaust beðið um lækkanir en um leið lagt til hækkanir,“ sagði Ásmundur Friðriksson.
Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sagði við Morgunblaðið í gær að hún væri ekki búin að kynna sér fjárlagafrumvarpið í þaula. „Auðvitað eru þarna atriði sem ég hefði haft öðruvísi, væri ég einráð. En við verðum að skoða frumvarpið í heildarsamhengi. Þetta verður áreiðanlega eins og venjulega; að við förum vandlega yfir frumvarpið í þinginu og reynum svo að breyta því sem við erum ósáttust við,“ sagði Unnur Brá.