„Hvernig í ósköpunum getur einn þingflokkur komið sér þannig út úr húsi hjá sínum stuðningsmönnum?“ Þannig skrifar Davíð Oddsson í leiðara sínum í dag. Sem hann tileinkar einkum Sjálfstæðisflokki og orkupakkanum. Hann dregur þó aðra flokka með í skrifunum. Ritstjórinn rýnir í nýjar skoðanakannanir máli sínu til stuðnings.
„Sérhver stjórnmálaflokkur sem uppgötvaði að 20-30% stuðningsmanna hans væri andvígur máli sem breyst hefði í stórmál sem hann sæti uppi með yrði mjög hugsandi. En hvað þá þegar 58% stuðningsmanna flokks botna ekkert í því hvert hann er að fara. Þá er eitthvað stórkostlega mikið að. Einhverjir hafa kvartað yfir því að Morgunblaðið hafi talið sig eiga samleið með 58 prósentum stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins í orkupakkamálum. Blaðið bindur sig ekki við flokka en er þó ánægt með þennan fjölda samferðamanna úr þessum flokki. Reyndar var ekki vitað betur í heilt ár en að þessi mikli meirihluti flokksfólks og blaðið hefði jafnframt verið samferða formanni flokksins, sem hafði gert afstöðu sína ljósa með mjög afgerandi hætti úr ræðustól Alþingis.“
Enn gefur Davíð Bjarna Benediktssyni olnbogaskot. Og fer létt með þar sem hann vitnar í ekki svo gamlar skoðanir Bjarna.
„Það eina óskiljanlega er að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er úti að aka með öðrum en stuðningsmönnum sínum og jafnvel lakar staddur í þeim efnum en þegar flokknum var óvænt ýtt skýringarlaust út á svipað forað í Icesavemálinu forðum,“ skrifar Davíð og hellir þá salti í hið eilífa sár, sem Icesave er í flokknum.
Davíð kíkir yfir til Pírata.
„Þá er einkar athyglisvert að afstaða stuðningsfólks Pírata er að breytast hratt. Í fyrrnefndri könnun sögðust 34% stuðningsmanna Pírata mjög andvígir orkupakkanum og hafði þessi andstaða aukist verulega frá því að seinast var mælt. Þá sýndi hún einnig að fullyrðingar um að yngra fólk styddi orkupakkaógöngurnar eru beinlínis rangar.“
Og svo til „smáflokkanna“.
„Könnunin sýnir einnig að þetta skrítna mál þar sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til atlögu við yfirgnæfandi meirihluta stuðningsmanna sinna, hefur eingöngu góðan stuðning hjá kjósendum smáflokkanna Viðreisnar og Samfylkingar, eða um 74% fylgi hjá hvorum. Ráða þeir virkilega ferðinni?“