„Það þarf dug og forystuhæfileika til að rétta kúrsinn þegar ratað hefur verið í ógöngur. Á næstu vikum gefst forystumönnum á þingi og í ríkisstjórn gott tækifæri til að láta muna um sig og ná sáttum við almenning í þessu máli. Þetta er tækifæri sem þeir mega ekki láta sér úr greipum renna.“
Þannig endar Moggaleiðari dagsins. Davíð Oddsson ráðleggur Bjarna Benediktssyni og býðst til að draga hann að landi eftir að hafa dregið þingflokkinn út í forarmýri að mati Davíðs og þeirra sem fylgja formanninum fyrrverandi að málum í orkupakkamálinu.
Davíð skrifar einnig: „Í umræðunni um þriðja orkupakkann hafa ýmis orð verið látin falla, meðal annars um þekkingarleysi þeirra sem vilja ekki pakkann. Það er óboðlegur málflutningur sem vonandi heyrir sögunni til. Þá hefur því verið haldið fram að andstæðingar pakkans séu fámennur og einangraður hópur. Nýbirt könnun verður vonandi til að menn hætti slíku tali.“
Þarna er jafnvel boðið upp á fyrirgefningu taki þingflokkurinn 180 gráðu beygju.
Davíð vitnaði til skoðanakönnunar. „Þetta á ekki síst við um ríkisstjórnarflokkana þrjá, en afstaða stuðningsmanna þeirra flokka er afar skýr. 68,4% framsóknarmanna eru fylgjandi því að Ísland verði undanþegið orkulöggjöf Evrópusambandsins en aðeins 6,9% eru því andvíg. 48,7% sjálfstæðismanna eru fylgjandi undanþágu en aðeins 19,9% andvíg. Þá eru 40% vinstri grænna fylgjandi því að Ísland verði undanþegið orkulöggjöfinni en aðeins 24,3% andvíg.
Þetta eru mjög skýrar línur og afar gott veganesti fyrir þessa flokka inn í sumarið hafi þeir áhuga á að staldra við og taka tillit til skoðana kjósenda flokkanna.
Og þessar skoðanir koma raunar ekki aðeins fram í þessari könnun, þær hafa einnig komið skýrt fram í flokkssamþykktum.“
Nú er að sjá hvaða áhrif Davíð kann að hafa á núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins. Er hlustað á hann eða ekki.