- Advertisement -

„Þið ástundið ömurlega pólitík“

- forseti borgarstjórnar segir minnihlutann vera á móti húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík.

 

Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar og borgarfulltrúi Vinstri grænna, er sýnilega lítt hrifin af framgöngu minnihlutaflokkanna í Reykjavík.

„Jæja. Línur geta ekki verið skýrari í borgarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn og flugvallavinir eru á móti húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík. Og Sjálfstæðismenn eru líka á móti tillögum sem unnar voru í samvinnu við þá sjálfa í ríkisstjórn,“ skrifar Líf á Facebook.

„Þessir tveir flokkar eru ekki lausnin þegar það kemur að húsnæðismálum borgarinnar. Þeir eru vandinn. Þeir hafa enga framtíðarsýn, eru íhaldssamir og halda að markaðurinn leysi allt. Engin plön. Ekkert. Ég vona svo sannarlega að þessir flokkar fái ekki að ráða nokkrum hlut um framtíð Reykvíkinga um ókomna tíð. Munurinn á hægri og vinstri er aldrei meiri en þegar við ræðum framtíðina og húsnæðismálin,“ skrifar hún.

Halldór Halldórsson.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, svarar forseta borgarstjórnar. „Skemmtilegt að þú skulir vekja athygli á þessu. Það vantar fleiri þúsund íbúðir í Reykjavík. Við í minnihlutanum höfum lagt til alls konar lausnir sem þið í meirihlutanum hafið fellt. Það voru 400 manns á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði árið 2014 en eru rúmlega 1.000 manns núna. Við getum ekki stutt fleiri leiksýningar af hálfu meirihlutans í Reykjavík í þessum húsnæðismálum,“ skrifar hann.

Líf svarar að bragði. „Þið ástundið bara ömurlega pólitík og eruð mestmegnis á móti öllu.“

Guðfinna J. Guðmundsdóttir.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar, tekur þátt í þrasinu. „Nei, við erum ekki á móti húsnæðisuppbyggingu eins og þið í meirihlutanum sem hafið valdið miklu tjóni með aðgerðarleysi ykkar og röngum ákvörðunum síðustu 3 árin. Það er skömm að VG hafi tekið þátt í þessum leiksýningum borgarstjóra í 3 ár. Eins og þú veist Líf hefur orðið 41% aukning á biðlista eftir almennum félagslegum leiguíbúðum í Reykajvík á 1 og 1/2 ári á vaktinni ykkar.“

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: