Framganga Bjarna Benediktssonar, í málinu gegn Þorvaldi Gylfasyni, hefur verið svona og svona og vakið athygli margra. Einn þeirra er Eiríkur Rögnvaldsson prófessor. Eiríkur skrifaði ágæta samantekt um hvernig Bjarni hefur runnið til og frá í málaflutningi sínum:
„Óháð því hvað manni finnst um afstöðu og athafnir fjármálaráðherra í ritstjóramálinu er málsvörn hans óboðleg. Hann sagði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á mánudag:
„Að lokum vil ég láta þess getið að af því að hér hefur ítrekað verið nefnt í opinberri umræðu og kemur aftur fram hér að menn hafi gefið rangar upplýsingar um að Þorvaldur hafi verið formaður í stjórnmálaflokki að þá var ekkert fullyrt um það í þessum tölvupósti. Í íslenskri þýðingu myndi maður þýða þetta einhvern veginn þannig: Eftir því sem best er vitað er hann ennþá formaður.“
Samkvæmt þessu er sem sagt hægt að segja hvað sem er, og segja svo eftir á „við vissum ekki betur“ þegar ósannindin hafa skilað tilætluðum áhrifum. Þetta er eins og útskýring hjá krakka (við vorum ekki að leika ljónatemjara heldur tígrisdýratemjara, fyrir fólk sem áttar sig á tilvísunum í Grím grallara). En finnst ráðherra boðlegt að ráðuneyti hans láti duga að fletta upp í wikipediu og segja svo „to the best of our knowledge“ í samskiptum við fulltrúa erlendra ráðuneyta?
Á þingfundi í gær sagði ráðherrann svo:
„Í fyrsta lagi er það ekki rétt að ég hafi fullyrt neitt um þetta. Ég sagði: Úr fjarlægð lítur þetta þannig út eins og hér séu tveir gamlir kunningjar að spjalla sín í milli og ráðstafa þessari tilteknu stöðu, úr fjarlægð. Ég veit náttúrlega ekkert um það, ég tók það skýrt fram.“
Þetta heita dylgjur á íslensku. Svona málflutningur er til skammar og óþolandi að ráðamenn skuli komast upp með þetta hvað eftir annað.“