- Advertisement -

Þetta getur gerst svo víða á Íslandi

Það voru engar varaleiðir, varabúnaður eða úrræði eða þær ekki nógu öflugar til að takast á við svona umfangsmikið tjón.

Marinó G. Njálsson skrifaði á Facebook:

Núna ætti að vera nógu langt liðið frá óveðrinu um daginn til að hægt sé að taka eitt skref til baka og skoða í raun og veru hvað gerðist og hvers vegna.

Fyrir það fyrsta, þá gekk lægð yfir landið sem víða náði styrk á við 3. stigs fellibyl og á stökum stað 4. stigs fellibyl. Í Bandaríkjunum rýma menn stór svæði, þegar fellibyljir af slíkum styrk eru væntanlegir í heimsókn. Munurinn á fellibyljum og íslensku ofsaveðri að vetri til er að því síðarnefnda fylgir snjókoma. Það var ekki við öðru að búast, en að eitthvað gæfi eftir. Kannski var tjónið meira en efni stóðu til, en vandinn var ekki tjónið.

Í þriðja lagi, komast viðbúnaðaraðilar ekki á milli staða.

Vandamálið var að um allt voru kerfin einföld. Það voru engar varaleiðir, varabúnaður eða úrræði eða þær ekki nógu öflugar til að takast á við svona umfangsmikið tjón. Ef þetta hefði bara verið ein af sýslunum á Norðurlandi, þá hefði þetta líklega sloppið, en það varð nánast altjón í fjórum sýslum. Þess vegna reyndist almennur viðbúnaður ekki nóg. Og þess vegna kom í ljós hve berskjaldað bæði raforkukerfið og fjarskiptakerfið voru. Viðbúnaður fyrirtækjanna sem reka kerfin hafði gengið út á, að hægt væri að fara hratt í endurreisn með færanlegum og sérhæfðum mannskap sem fljótlegt væri að koma á milli staða.

Þetta er kunnugleg staða, þegar stærri hamfarir eiga sér stað. Í fyrsta lagi eru hamfarirnar það miklar, að þær ná út fyrir alla hugsun í viðbúnaðarstjórnun. Í öðru lagi, þá kalla þær á sama sérhæfða mannskapinn út um allt. Í þriðja lagi, komast viðbúnaðaraðilar ekki á milli staða, hvað þá allur tækjabúnaður og varahlutir sem þarf til viðgerða eða neyðarhjálpar. Í fjórða lagi, þá á hinn sérhæfði mannskapur kannski ekki heimangengt, þar sem hann er að bjarga eigin fjölskyldu (það átti ekki við í þetta sinn, að ég best veit). Það gekk sem sagt ekkert upp, sem hafði líklega verið vel skipulagt og hafði hingað til gengið upp þegar umfangið var minna.

Það jók hins vegar á vandann, að varakerfi/varaleiðir voru ekki til staðar. Varaaflsstöðvar höfðu verið teknar úr rekstri og jafnvel seldar úr landi. Viðbragðsaðilar höfðu gert sér vinnuna erfiðari með því að fjarlægja það sem hefði getað fækkað algjörum neyðartilfellum. Allt var orðið að neyðartilfelli. Svo þegar rafmagnið hélst úti í lengri tíma, þá hrönnuðust upp vandamálin hér og þar í samfélaginu, sem mörg byggðu á því sama. Þetta hafði alltaf gengið svo vel, að menn voru farnir að treysta því, að Landsnet og Rarik redduðu hlutunum innan nokkurra klukkutíma, en það var sá tími sem flestir treystu sér til að bíða. Það bara gerðist ekki.

Það kom í ljós að komið var út fyrir þolmörk tímaviðkvæmni vegna rafmagnsleysis.

Hús fóru að kólna, fjarskipta að detta út (ef þau voru ekki fyrir löngu dottin út af öðrum ástæðum), kýrnar varð að handmjólka, hjúkrunarheimili komust í vanda, vatn fór að vanta, búðir gátu ekki opnað. Það kom í ljós að komið var út fyrir þolmörk tímaviðkvæmni vegna rafmagnsleysis. Neyðarástandið hjá Landsneti og Rarik var orðið að neyðarástandi hjá hinum almenna borgara. Ég á von á því, að það verði tekið tillit til þess við endurskoðun neyðaráætlana hjá þessum fyrirtækjum. Því þegar allt kemur til alls, þá var ekki mikið hægt að setja út á viðbrögð þessara fyrirtækja. (Ég hef þó heyrt eitt og það er að þau afþökkuðu aðstoð sem þeim var boðin. Hugsanlega með góðum rökum, en kannski mun það auka samheldni samfélaganna, að þiggja slíka aðstoð næst.)

Málið er, að þetta getur gerst svo víða á Íslandi. Þó tæknin hafi kannski gert lífið auðveldara, þá er Ísland harðbýlt land. Hér geta orðið jarðskjálftar og eldgos. Þó svo að ekki hafi hlotist stórtjón af slíkum náttúruhamförum nýlega, þá styttist í þau næstu. Hvað verður það? Jarðskjálfti á Suðurlandi eða er það á Norðurlandi? Mun Katla gjósa, Öræfajökull eða er það á Reykjanesskaga? Eins og með óveðrið um daginn, þá er sama hversu fjarstæðukennt er, að eitthvað af þessu verði (sem er í reynd ekki fjarstæðukennt), þá verður að reikna með að hið ólíklega skelli á okkur. Það kostar pening að búa sig undir það óvænta og halda við búnaði og kerfum sem nota þarf, þegar hin óvænta, en vonandi ekki óundirbúna, stund kemur upp. Það er á ábyrgð stjórnvalda að greiða fyrir slíkt. Ekki er hægt að ætlast til þess, að fyrirtæki í samkeppnisrekstri eða almannaþjónustu beri kostnaðinn af því, að út um allt séu tiltækar varaaflsstöðvar eða fjarskipti haldist órofin við hvaða aðstæður sem er. Vissulega þurfa þessi fyrirtæki að gera betur og kannski að aðilar eigi að skipta kostnaði á milli sín. Hitt er hins vegar ALLTAF ódýrara, að vera viðbúinn, en að þurfa að hugsa allt meira og minna frá grunni, þegar áfallið skellur á. Sem betur fer hefur ýmislegt verið undirbúið í þaula, en af reynslu síðustu daga, þá er tímabært að fara yfir allar slíkar áætlanir sjá hvort eitthvað mætti betur fara. Höfum eitt á hreinu. Alveg eins og með veðurofsann um daginn, þá munu koma upp atvik í framtíðinni sem erfitt verður að ráða við. Þó viðbragðsaðilar séu á fullu dag og nótt, þá verður það stundum ekki nóg. Þess vegna segi ég: Verum viðbúin!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: