Þetta fólk og gögnin um lán til þingmanna sem voru læst inni
Þorvaldur Gylfason skrifar:
Þetta fólk er í hópi þeirra sem ákváðu að framfylgja ekki ályktun Alþingis frá 2012 um að rannsaka einkavæðingu bankanna 1998-2003. Hefði rannsókn verið hafin 2012 eða 2013 hefðu meint lögbrot tengd einkavæðingunni ekki fyrnzt 2013. Nærtækt virðist að álykta að einmitt þess vegna hafi Alþingi ekki látið hefja rannsóknina. Hvers vegna flytur enginn þingmaður frumvarp um að skjölin frá Rannsóknarnefnd Alþingis um lán föllnu bankanna til þingmanna sem eru geymd í Þjóðskjalasafni verði birt almenningi?
Eiga þær 10-15 þúsund fjölskyldur sem misstu heimili sín í hruninu ekki heimtingu á að fá þessar upplýsingar? Hingað til hafa aðeins verið birtar upplýsingar um þá tíu þingmenn sem skulduðu mest, eina milljón evra eða meira hver um sig, en ekkert um það sagt hvort eða hvernig skuldirnar voru gerðar upp. Og gögnin um öll hin voru læst inni. Í þessu ljósi er það fráleit fyrirætlan að einkavæða Íslandsbanka nú.
Gunnar Tómasson bætir við:
Hvers vegna flytur enginn þingmaður frumvarp um að skjölin frá Rannsóknarnefnd Alþingis um lán föllnu bankanna til þingmanna sem eru geymd í Þjóðskjalasafni verði birt almenningi?
Umsögn:
Viðkvæmar upplýsingar um þá þingmenn eru augljóslega á vitorði fjármálamanna, sem sátu hinum megin við borðið við lánafyrirgreiðslu og uppgjör lána við þá.
Á meðan leynd hvílir yfir skjölunum eru viðkomandi þingmenn vanhæfir til að koma að ákvarðanatöku um hugsanlega sölu hluta í ríkisbönkunum til aðila sem búa yfir slíkri vitneskju.