Greinar

Þetta finnst mér voðalega ruglandi

By Miðjan

March 11, 2023

Sólveig Anna formaður Eflingar skrifar:

Í kosningabaráttunni sem nú stendur yfir í VR þykir smart hjá vissri kreðsu að gera formann VR samsekan mér í minni margvíslegu glæpastarfsemi, eða kenna honum um hvað ég er vond. Þessi kreðsa er samt að eigin sögn gríðarlega femínísk. Þetta finnst mér voðalega ruglandi því síðast þegar að ég vissi þá er mjög mikilvægt í femínískum fræðum að boða “agency” (verkun) sem þátt í valdeflingu kvenna; getu kvenna til að grípa til markvissra aðgerða og stefna sjálfstætt að markmiðum, algjörlega óháð því hvað mönnum finnst, hvað þeir vilja eða hvaða skoðanir þeir hafa.

Ég er kvenréttindakona frá blautu barnsbeini og hef ávallt verið meðvituð um mitt eigið “agency”. Og sem kvenréttindakona sver ég hér og nú að formaður VR hefur enga aðkomu haft að kven-demonískum ákvarðanatökum mínum eða fyrirætlunum sem kven-formanni í verkalýðshreyfingunni. Þar ber ég alla sök og hann enga.

Ég er tilbúin til að játa samneyti við ketti og kölska, og geitur, bæði frekju og venjulegar, mörg síðustu ár. Og ef að þau vilja axla ábyrgð á hegðun minni og framkomu þá mun ég ekki gera neinar sérstakar athugasemdir við það. En sem kvenréttindakona bókstaflega krefst ég þess að hætt verði að reyna að klína ábyrgðinni á mér á menn útí bæ. Í nafni móðurgyðjunnar, hingað og ekki lengra: Ég hef engan áhuga á að deila kven-bálkestinum mínum með blásaklausum karli.