Stjórnmál

„Þetta er stóralvarlegt mál“

By Miðjan

January 19, 2022

Nú sitja íslensk stjórnvöld og auðvitað íslenskur almenningur uppi með að hafa brotið lög með tilheyrandi tjóni.

„Einu sinni sem oftar kem ég hingað í pontu til að ræða vandaða lagasetningu og vönduð vinnubrögð hér á Alþingi. Við samningu og vinnslu þingmála þarf að hafa samráð við helstu hagaðila og fræðifólk svo að hægt sé að fá helstu sjónarmið fram og það skiptir ekki minna máli að við hér í þinginu fáum nægan tíma til umfjöllunar til að koma í veg fyrir mistök, stundum óafturkræf. Því miður erum við strax hér við upphaf kjörtímabils að sjá hið gagnstæða í vinnubrögðum stjórnarflokkanna. Á síðasta kjörtímabili komu fram ýmis mál sem varða klúður stjórnar við lagasetningu, ýmist af ásettu ráði eða ekki,“ sagði Helga Vala Helgadóttir á Alþingi í gær.

„Í morgun bárust fregnir af því að ESA hefði staðfest brot íslenska ríkisins á löggjöf um umhverfismat en málið varðar afgreiðslu þingsins á fiskeldisfrumvarpi sem afgreitt var hér í miklum hraði á einum degi árið 2018. Þetta er stóralvarlegt mál og sýnir viðhorf stjórnvalda til ákvarðanatöku í umhverfismálum. Þáverandi umhverfisráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson fullyrti hér í þinginu að engar áhyggjur þyrfti að hafa af lögbrotum og þar við sat. Nú sitja íslensk stjórnvöld og auðvitað íslenskur almenningur uppi með að hafa brotið lög með tilheyrandi tjóni. Sama var uppi á teningnum varðandi Landsréttarmálið og skipun dómara sem ráðherrar hér, einn af öðrum, fullyrtu að hefði verið innan laga og allt í samræmi við leikreglur en allir dómstólar, innlendir sem erlendir, komust að gagnstæðri niðurstöðu um að þar hefði skýrt lögbrot verið á ferðinni,“ sagði Helga Vala.

„Það er ekki merki um góða stjórnarhætti að standa hér fastur á vondri framkvæmd. Enn verri stjórnarhættir eru það að þvinga í gegnum Alþingi lagasetningu sem hefur óafturkræfar afleiðingar og oft og tíðum umtalsverðan kostnað í för með sér fyrir íslenskan almenning. Gerum betur og vöndum okkur því að til þess vorum við kosin,“ sagði Helga Vala.