- Advertisement -

„Þetta er mann­fjand­sam­legt þjóðfé­lag“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir:

„Þess­ir flokk­ar vinna vel sam­an enda stend­ur eng­inn þeirra fyr­ir raun­veru­leg­um breyt­ing­um og eng­inn þeirra mun setja hag fólks­ins fram­ar hag fjár­festa eða fjár­mála­kerf­is­ins.“

Stjórnmál „Íslend­ing­ar hafa um ára­bil búið við upp­log­inn „verðstöðug­leika“ fjór­flokks­ins. Þrír þeirra eru í rík­is­stjórn núna og hugs­an­lega mun sá fjórði leiða næstu rík­is­stjórn og senni­lega kippa ein­um eða tveim­ur hinna með sér í hana,“ segir í nýrri Moggagrein Ásthildar Lóu Þórsdóttur, þingmanns Flokks fólksins og formanns Hagsmunasamtaka heimilanna.

Ásthildur Lóa er gagnrýnin og gerir ráð fyrir að Samfylkingin leiði næstu ríkisstjórn og taki með sér einn eða tvo af fjórflokknum.

„Þess­ir flokk­ar vinna vel sam­an enda stend­ur eng­inn þeirra fyr­ir raun­veru­leg­um breyt­ing­um og eng­inn þeirra mun setja hag fólks­ins fram­ar hag fjár­festa eða fjár­mála­kerf­is­ins,“ skrifar Ásthildur.

„Hér er allt í rúst eft­ir þessa flokka.“

„Hér er allt í rúst eft­ir þessa flokka. Al­veg sama hvert er litið, kerf­in okk­ar eru að falla hvert af öðru, hvort sem um er að ræða skóla­kerfið, heil­brigðis­kerfið, al­manna­trygg­inga­kerfið, vega­kerfið eða nokkuð annað. Sama hvert litið er, það er ekk­ert að virka sem skyldi, nema nátt­úru­lega fjár­mála­kerfið.

Það blómstr­ar sem aldrei fyrr og fjár­fest­ar, þeir sem hafa pen­inga á milli hand­anna, nýta sér mögu­leik­ana, sem þeir hafa fengið á silf­urfati, til hins ýtr­asta.

Aðrir, var­lega áætlað um helm­ing­ur þjóðar­inn­ar, horfa hins veg­ar á hag sinn versna frá ári til árs, eða ná kannski í besta falli að halda í horf­inu. Það á reynd­ar bara við um þá sem skulda lítið og hafa því ekki orðið fyr­ir því mis­kunn­ar­lausa áhlaupi sem Seðlabank­inn hef­ur staðið fyr­ir á hag og af­komu tugþúsunda ein­stak­linga á und­an­förn­um tveim­ur árum,“ skrifar Ásthildur Lóa og heldur áfram af sama krafti:

„Það er staðreynd þrátt fyr­ir gas­lýs­ing­ar um vel­ferð, hag­vöxt og „góða eig­in­fjár­stöðu heim­il­anna“, að áhættu­sam­asta fjár­fest­ing­in á Íslandi eru fast­eigna­kaup.

Það að koma sér þaki yfir höfuðið eru mann­rétt­indi. Það er fátt mik­il­væg­ara í lífi hvers og eins en að eiga heim­ili, ör­uggt skjól í þeim vind­um sem blása, þar sem við deil­um sorg­ar- og gleðistund­um með okk­ar nán­ustu og eig­um okk­ur af­drep í dags­ins önn.

„Seðlabank­inn spil­ar rúss­neska rúll­ettu með ör­yggi og skjól þeirra sem ekki geta varið sig.“

En nei, þess í stað búum við í landi þar sem bæði fast­eigna- og leigu­markaður­inn eru eins og villta vestrið og Seðlabank­inn spil­ar rúss­neska rúll­ettu með ör­yggi og skjól þeirra sem ekki geta varið sig.“

Hér á eftir fer niðurlag greinarinnar:

„Óbil­girn­in og hark­an gagn­vart heim­il­um lands­ins er slík að þó að verðbólg­an hafi lækkað um 42% frá því hún var hæst, hef­ur það eng­in áhrif haft á þessa him­in­háu vexti og seðlabanka­stjóri hef­ur jafn­vel látið hafa eft­ir sér að þeir muni ekki lækka á þessu ári.

Hér fer stöðugt allt á verri veg og það má vissu­lega kalla það „stöðuga efna­hags­stjórn“, en af­leiðing­arn­ar eru skelfi­leg­ar. Í raun er búið að hindra „hringrás lífs­ins“ því ungt fólk get­ur varla stofnað sín eig­in heim­ili og fæðing­artíðni hef­ur aldrei verið lægri.

Þetta er mann­fjand­sam­legt þjóðfé­lag og við erum far­in að súpa seyðið af því með al­var­leg­um af­leiðing­um.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: