Greinar

Þetta er „keisarapapismi”, sem stjórnskipunarlega jaðrar við alræði

By Ritstjórn

July 21, 2020

Í fyrsta skipti mun framkvæmdastjórnin fá völd til að afla fjár á lánamörkuðum og ákveða hvernig fjármagninu er útdeilt

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifar:

Evrópusambandið er e.t.v. ekki skemmtilegt umræðuefni. Allra síst í júlí.

Þó myndi maður vilja sjá dýpri umfjöllun um ESB þegar það tekur ákvarðanir sem breyta evrópskum stjórnmálum í grundvallaratriðum. Einhvers staðar í íslenskum miðli sá ég það „sérfræðiálit” að nýjasti „björgunarpakki” ESB væri „klassískt dæmi um hlutverk Evrópusambandsins”.

Ambrose Evans-Pritchard sem að öðrum ólöstuðum er sá breski blaðamaður sem telst vera helsti sérfræðingurinn í málefnum ESB og evrópskum efnahagsmálum skrifar hins vegar í fréttaskýringu í Daily Telegraph í dag:

„Sjóðurinn markar grundvallarbreytingu á uppbyggingu og eðli „Evrópuverkefnisins”. Í fyrsta skipti mun framkvæmdastjórnin fá völd til að afla fjár á lánamörkuðum og ákveða hvernig fjármagninu er útdeilt, og gera þar með þetta skrítna og margslungna fyrirbæri að enn sérkennilegri stofnun.

Hvar annars staðar í heiminum hefur einn ókjörin hópur rétt á að stofna til lagasetningar, framkvæmdavald á borð við ríkisstjórn og útgjaldaheimildir þjóðþings, allt í einum pakka?”

Evans-Pritchard heldur svo áfram:

„Þetta er „keisarapapismi”, sem stjórnskipunarlega jaðrar við alræði, að mestu eftirlitslaus af hálfu þjóðþinga.

Montesquieu hlýtur að snúa sér við í gröfinni.

Þannig að já, þetta skiptir máli. Emmanuel Macron hafði rétt fyrir sér í nótt þegar hann kallaði þetta „sögulega stund” fyrir Evrópu. En það hvort þetta eru líka söguleg mistök „une fuite en avant”, eins og Frakkar segja, á hins vegar eftir að koma í ljós.